Innlent

Ögmundur um ECA: „Misskilningur og bráðræði“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, er ekki hrifinn af tilkynningu ECA Programs og segir hana byggða á misskilningi.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, er ekki hrifinn af tilkynningu ECA Programs og segir hana byggða á misskilningi.

Í frétt á vef ECA Programs er vísað á vef samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins og sagt að Kristján L. Möller, sem þar er nefndur „Christian L. Möller," hafi skipað Flugmálastjórn Íslands að hefja skráningarferli fyrir þær vélar ECA sem koma eiga til Íslands. Þar lýsir fyrirtækið yfir ánægju sinni og þakklæti vegna samþykkis ríkisstjórnar Íslands og segjast forsvarsmenn fyrirtækisins hlakka til að vinna náið með Flugmálastjórn Íslands.

Eitt af síðustu verkum Kristjáns Möller var að senda flugmálastjórn bréf þar sem þeim henni er veitt heimild til undirbúnings á skráningum véla ECA. Þetta var síðan leiðrétt, en ríkisstjórnin taldi að ekki hefði legið fyrir sátt um slíkt.

Ögmundur Jónasson, nýr innanríkisráðherra, tók m.a við málefnum sveitarstjórnar- og samgöngumála. „Þetta er misskilningur og bráðræði af hálfu þessa fyrirtækis því að þessi mál eru enn til athugunar. Það breytir engu um aðkomu mína að málinu. Þá á bara einfaldlega eftir að svara ákveðnum spurningum. Þá er það tvennt, hvort þessi starfsemi samrýmist ákvæðum stjórnarsáttmála um friðsamlega utanríkisstefnu og þá vil ég að menn fái heildarsýn og viti hvaða fyrirtæki þetta raunverulega er. Vandinn er sá að það er ekki þekkt neinsstaðar og reynsla af því lítil. Í annan stað eru spurningar sem lúta að stjórnsýslunni," segir Ögmundur. Hann segir að Flugmálastjórn hafi verið beðin um að afla upplýsinga um tíu efnisatriði sem lúti að skráningu þessara véla. Á meðan þurfi forsvarsmenn ECA Programs að sýna biðlund.

Þetta eru vopnlausar vélar og Suðurnesin eru sá landshluti á Íslandi þar sem atvinnuleysi er mest. Mun þetta ekki skapa mikla atvinnu og tekjur fyrir það fólk sem þarna býr? „Ef þetta er skaðlaus starfsemi sem uppfyllir allar kröfur og er í samræmi við okkar stjórnsýslu, þá er ekki óttast. En ef svo er ekki þá verða leyfin ekki veitt, en við skoðum þetta málefnalega og komumst að niðurstöðu í kjölfarið," segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.






Tengdar fréttir

ECA lítur svo á að fullnaðarleyfi hafi verið veitt

Forsvarsmenn fyrirtækisins ECA Program Limited líta svo á að fullnaðarleyfi hafi verið veitt fyrir starfsemi sinni á Íslandi. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins. Þar birtist í gær frétt með fyrirsögninni: „Icelandic government grants ECA final operating license" sem á íslensku útleggst sem: „Íslensk stjórnvöld veita ECA endanlegt starfsleyfi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×