Innlent

Framsóknarmenn vilja endurskoða samstarfið við AGS

Þingflokkur framsóknarmanna.
Þingflokkur framsóknarmanna. Mynd/Stefán Karlsson
Framsóknarflokkurinn vill endurskoða samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ljósi atburða og breyttra aðstæðna frá því að upphaflegur samningur var gerður við sjóðinn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tillögu um þjóðarsátt í tíu liðum sem flokkurinn hefur lagt fram.

Að mati flokksins er óhjákvæmilegt að endurskoða peningamálastefnu Seðlabankans og þær aðferðir sem þar eru notaðar við ákvarðanatöku. Eðlilegt sé að vextir á Íslandi séu ekki meira en þremur prósentustigum hærri en hjá evrópska seðlabankanum. Þá vill flokkurinn að gerð verði langtímaáætlun í útgjöldum ríkisins og að gjaldþrotalögum verði breytt.

Um samstarfið við AGS segir í tillögum Framsóknarflokksins.: „Í því felst ekki að slitið verði samstarfi við sjóðinn án þess að fyrir liggi aðrar lausnir á þeim vanda sem ætlunin var að vinna á með aðkomu AGS. Hins vegar er löngu orðið tímabært að leita annarra leiða til að leysa umrædd vandamál. Hætta er á að sú nálgun sem nú er unnið út frá geti gert illt verra. Verði t.d. komið upp gjaldeyrisforða fyrir lánsfé sem svo er notaður í að halda uppi gengi krónunnar til skamms tíma mun það reynast dýrkeypt. Um það vitna ótal dæmi frá öðrum löndum. Ógjörningur er að verja gengi gjaldmiðils með lánsfé."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×