Innlent

Ekkert eftirlit með rafsegulsviði

Helga Arnardóttir skrifar
Drífa Hjartardóttir. Vill rannsóknir á rafsegulmengun.
Drífa Hjartardóttir. Vill rannsóknir á rafsegulmengun.

Ekkert eftirlit er haft með rafsegulsviði á vinnustöðum eins og með hljóð-og loftmengun og eru engar reglugerðir til um það hér á landi. Forstjóri Vinnueftirlitsins segir mikilvægt að settar verðir slíkar reglur og er til í samstarf með Geislavörnum ríkisins.

Drífa Hjartardóttir fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði sjö sinnum fram þingsályktun um að rannsóknir yrðu gerðar á áhrifum rafsegulsviðs á mannslíkamann af völdum rafmagnsveitulína, orkuveitna, spennustöðva og fjarskiptamastra sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins. Þingsályktunin dagaði alltaf uppi í nefnd.

Á mörgum vinnustöðum getur rafsegulsvið af völdum rafmagnstækja oft verið hátt. Ekkert eftirlit er haft með því.

„Um þetta gilda ekki neinar reglur hér á landi þannig að það er ekki formlegt og ákveðið eftirlit með þessum á vinnustöðum með sama hætti og með hávaða- og loftmengun," segir Eyjólfur Þór Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlitsins.

Tekið sé mið af vinnuverndarreglum á evrópska efnahagssvæðinu og núna sé reglugerð í smíðum um rafsegulsvið. Eyjólfur gerir ráð fyrir að þær líti dagsins ljós eftir tvö ár. Eyjólfur telur ríka þörf á slíkum reglum og eftirlit eigi að vera með þessum málum. Þetta sé töluvert umdeilt mál. Annars sé það hlutverk félags- og tryggingamálaráðuneytisins að setja slíkar reglur hér á landi.

Drífa lagði til í hádegisfréttum í gær að Geislavarnir ríkisins, Vinnueftirlitið, löggildingarstofa og Orkustofnun ynnu að þessum málum í sameiningu. Eyjólfur segir það góða hugmynd.

„Við bíðum eftir því að reglugerðir líti dagsins ljós um þessi mál og við erum að sjálfsögðu reiðubúin til samstarfs um það," segir Eyjólfur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×