Innlent

Hótanir í Hrútafirði vegna bensínstöðvar

Staðarskáli ehf. og eigendur jarðarinnar Staðar í Hrútafirði sögðust í bréfi til hreppsnefndar Bæjarhrepps myndu beita afli sínu til að hindra að leyfi yrði gefið fyrir öðrum þjónustuskála í Hrútafirði.

Eins og fram hefur komið hefur Skeljungur reynt frá árinu 2006 að fá leyfi til að reisa þjónustustöð í landi Fögrubrekku í Hrútafirði. Á árinu 2008 var opnaður nýr Staðarskáli í botni Hrútafjarðar. Nýi skálinn leysti af hólmi bæði gamla Staðarskála og þjónustuskálann á Brú. Á báðum þessum stöðum var eldsneytissala frá N1 og svo er einnig í nýja Staðarskálanum. Áform Skeljungs fóru illa í eigendur Staðarskála.

„Það er öllum ljóst sem vilja vita að ekki er rekstrargrundvöllur fyrir tveim þjónustumiðstöðvum í botni Hrútafjarðar á ársgrundvelli og teljum við það mikið ábyrgðarleysi af hálfu hreppsnefndar Bæjarhrepps að gefa leyfi fyrir annarri þjónustumiðstöð við hlið þeirrar sem við höfum hug á að byggja," segir í harðorðu bréfi sem Kristinn Guðmundsson sendir fyrir hönd Staðarskála og landeigenda að Stað til oddvita Bæjarhrepps í nóvember 2006.

„Við teljum að það sé verið að koma í bakið á okkur. Í fyrsta lagi með því að setja þjónustupunkt í landi Fögrubrekku og annars vegar ef Skeljungi hf. verður gefið leyfi til að reisa þjónustumiðstöð svo stutt frá okkur og þá teljum við um leið ekki forsendu fyrir okkur að samþykkja tillögur að aðalskipulagi," segir í bréfinu til oddvitans, þar sem vísað er til samtala hreppsnefndarmanna og Staðarmanna. „Kjörnir fulltrúar sem bjóða sig fram í hreppsnefndir hljóta að verða að taka tillit til þess sem áður hefur verið gert í sveitarfélaginu."

Í bréfinu sést að Kristinn telur Staðarmenn hafa sterk spil á hendi til að sveigja Bæjarhrepp að hagsmunum Staðarskála. Bendir hann á að fyrirtækið og landeigandinn hafi tekið tillit til vilja heimamanna í Bæjarhreppi um að tenging Djúpvegar við nýja hringveginn kæmi í botni Hrútafjarðar en ekki sunnar.

„Höfum við töluvert um það að segja þar sem við erum með starfsemi í Brú og eigum þar land, einnig er öll veglínan í Húnaþingi vestra í landi Staðar. Það er óumflýjanlegt að aðalskipulag beggja sveitarfélaganna verði að taka tillit til þeirrar starfsemi sem við erum með - að öðrum kosti komum við til með að leita réttar okkar svo eftir verður tekið," segir í bréfi Staðarmanna til oddvita Bæjarhrepps. gar@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×