Innlent

Bankamenn átaldir fyrir milljarðakröfur

Formaður þingflokks sjálfstæðismanna segir miklar fjárkröfur fyrrverandi starfsmanna á hendur þrotabúi Landsbankans sýna þær öfgar sem hafi verið í gangi. Þingmaður VG segir starfsmennina gengna út úr íslenska landakortinu.
Formaður þingflokks sjálfstæðismanna segir miklar fjárkröfur fyrrverandi starfsmanna á hendur þrotabúi Landsbankans sýna þær öfgar sem hafi verið í gangi. Þingmaður VG segir starfsmennina gengna út úr íslenska landakortinu.

„Mér finnst þetta vera veruleikafirrtir siðleysingjar að láta sér koma til hugar að tefla fram kröfum af þessu tagi," segir Ögmundur Jónasson, alþingismaður Vinstri grænna, um fjárkröfur háttsettra fyrrum starfsmanna Landsbanka Íslands.

Fimmtán starfsmenn Landsbankans krefjast samtals 2,6 milljarða króna af þrotabúi bankans. Hæsta krafan er 490 milljónir. Fimm fyrrverandi starfsmenn vilja yfir 200 milljónir í sinn hlut. Slitastjórn bankans hefur ekki tekið afstöðu til þessara krafna.

„Þetta eru óskaplega háar tölur sem þarna er um að ræða og þær undirstrika þær öfgar sem voru í gangi," segir Illugi Gunnarsson, sem kveðst vilja skoða málið betur áður en hann tjáir sig nánar um það.

Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir erfitt að sakast við þá sem sæki rétt sinn samkvæmt samningum.

„Ég hef alltaf sagt að það ætti frekar að sakast við þá sem gerðu þessa samninga við þessa menn," segir Friðbert.

Ögmundur segir ótrúlegt að sjá slíkar kröfur á meðan þjóðin sé á hliðinni.

„Verið er að skerða bætur almannatrygginga, það hefur verið til umræðu að skerða atvinnuleysisbætur. Við erum að skera niður í heilbrigðismálum og á sama tíma eru menn að tefla fram kröfum sem eru byggðar á bónussamningum, kaupréttarsamningum og öðru af því tagi. Mér finnst menn vera gengnir út úr því landakorti sem heitir það Ísland sem ég vil kannast við," segir Ögmundur. - gar / sjá síðu 6







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×