Innlent

Þrettán ára nemandi réðst á smíðakennara

Þrettán ára nemandi í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi réðst á smíða-og stuðningskennara sinn sem er á sextugsaldri í fyrradag. Kennarinn leitaði til læknis vegna brjóst-og kviðverkja eftir árásina.

Kennarinn er fimmtíu og fimm ára og kennir smíði og er með stuðningskennslu í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Nemendur munu hafa verið með mikil ólæti í fyrradag og var kennarinn að reyna að stilla til friðar þegar unglingspiltur í níundabekk réðst á hann og lét þung högg dynja á honum.

Kennarinn vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa náði tali af honum en taldi ekki líklegt að hann myndi kæra árásina til lögreglu. Samkvæmt heimildum fréttastofu leitaði hann til læknis í gær vegna brjóst- og kviðverkja. Hann mun einnig hafa verið töluvert lemstraður eftir árásina.

Guðlaug Sturlaugsdóttir skólastjóri Valhúsaskóla segist ekki getað tjáð sig um einstök mál, hún harmi hins vegar þetta atvik og segir að brugðist verði við málinu samkvæmt reglum skólans.

Móðir drengsins hafði samband við fréttastofu í dag og fullyrðir að hann hafi ekki ráðist á kennarann af fyrra bragði. Unglingarnir hafi verið í vatnsslag og til ryskinga hafi komið á milli drengsins og kennarans þegar kennarinn reyndi að stilla til friðar. Hún segir drenginn einnig hafa þurft að leita til læknis vegna líkamsáverka eftir átökin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×