Innlent

Umtalsverð lækkun launa handhafa forsetavalds

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er einn handhafa forsetavalds í hans fjarveru.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er einn handhafa forsetavalds í hans fjarveru.
Í frumvarpi efnahags- og skattanefndar sem lagt var fram á Alþingi í dag er gert ráð fyrir því að laun handhafa forsetavalds verði samanlagt fimmtungur launa forseta þann tíma sem þeir fara með forsetavald um stundarsakir.

Þetta er umtalsverð lækkun, en eins og sakir standa njóta handhafar forsetavaldsins samanlagt jafnra launa og laun forseta meðan þeir fara með forsetavaldið.

Handhafar forsetavalds í fjarveru hans eru forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti hæstaréttar, og skulu launin skiptast jafnt á milli þeirra.

Greiðslurnar hafa numið um tíu milljónum króna undanfarin fimm ár og lækka því í tvær milljónir verði engar stórvægilegar breytingar á starfi handhafanna framvegis.

Í greinargerð með frumvarpinu er það sagt liður í stefnu stjórnvalda að ná fram hagræðingu og sparnaði í ríkisrekstri.

Lækkunin er ákveðin með hliðsjón af því að eðli málsins samkvæmt eru störf handhafa forsetavalds að mestu takmörkuð við lögbundin störf, svo sem staðfestingu laga og þess háttar, þegar forseti Íslands er erlendis, en ekki heimsóknir, móttökur, setningarávörp og annað af því tagi sem m.a. felst í störfum forsetans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×