Innlent

Árborg eyðir milljónum í Facebook bann

Valur Grettisson skrifar
Selfoss.
Selfoss.

Árborg mun taka lán upp á þrjár milljónir til kaupa á internetsíu sem meðal annars er ætlað að hefta aðgang starfsmanna að Facebook. Þetta var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær.

Á sama fundi var greint frá tapi bæjarfélagsins upp á 1,4 milljarða króna vegna erfiðs árferðis í viðskiptum og efnahagslífi.

Með kaupum á síunni fetar Árborg í fótspor fjölmargra fyrirtækja og stofnanna. Þess má geta að meðal þeirra sem ekki komast á Facebook og sambærilegar heimasíður eru starfsmenn Landspítalans.

Sjálfstæðismaðurinn Eyþór Arnalds mótmælti lántöku bæjarfélagsins fyrir internetsíunni harðlega og segir í bókun á fundinum í gær:

„Sú ákvörðun að verja milljónum króna í kaup á Internetsíu vekur furðu. Talsverður niðurskurður er þegar hafinn vegna slæmrar fjárhagsstöðu auk þess sem horfur eru neikvæðar. Þá er í dag lagður fram ársreikningur Árborgar fyrir síðasta ár þar sem tap bæjarsjóðs er meira en tólf hundruð milljónir króna. Kaup á netsíu fyrir lánsfé getur varla verið forgangsmál enda er á engan hátt sýnt fram á að hugbúnaðurinn spari útgjöld. Þá liggja fyrir fundinum svör meirihlutans vegna niðurfellingar skólaferðalaga barna í 7. og 10. bekk og bendir þetta allt til þess að forgangsröðun meirihlutans sé ábótavant."

Við þetta bætir svo Eyþór á heimasíðu sinni og segir að skólaferðalög og Skólahreysti liggi niðri vegna fjárskorts.

Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum gegn fjórum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×