Fótbolti

Arnór Ingvi kominn á blað í Svíþjóð og það með stæl | Sjáðu glæsimarkið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnór Ingvi fór á kostum í kvöld.
Arnór Ingvi fór á kostum í kvöld. mynd/ifknorrköping.se
Arnór Ingvi Traustason var miklum ham fyrir lið sitt IFK Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld, en það lagði Gefle á heimavelli, 4-1.

Leikurinn var í raun búinn í hálfleik því eftir 45 mínútna leik var staðan orðin 4-0 fyrir heimamenn í Norrköping.

Christoffer Nyman hóf veisluna á sjöttu mínútu, en níu mínútum síðar bætti Arnór Ingvi við öðru mark heimamanna, 2-0.

Keflvíkingurinn var aftur á ferðinni á 40. mínútu, en hann skoraði þá stórkostlegt mark með þrumuskoti í samskeytin. Þetta magnaða mark má sjá hér.

Þetta eru fyrstu mörk Arnórs Ingva á leiktíðinni, en hann lagði upp tvö mörk í annarri umferðinni gegn Halmstad.

Christoffer Nyman bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Norrköping á 45. mínútu, en á 60. mínútu minnkuðu gestirnir í Gefle muninn, 4-1, og þar við sat.

Norröping er í áttunda sæti deildarinnar með átta stig eftir fimm umferðir, en Gefle er sæti neðar með jafnmörg stig.

Landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson spilaði sem miðvörður í tapi Helsingborg á útivelli gegn IFK Gautaborg, 3-1.

Victor og félagar voru komnir 2-0 undir eftir 18 mínútur, en heimamenn í Gautaborg skoruðu þriðja markið á 58. mínútu. Hjálmar Jónsson sat allan tímann á bekknum hjá Gautaborg.

Þetta var fyrsta tap Helsingborg í deildinni, en það er í sjötta sæti með átta stig eftir fimm umferðir. Gautaborg er á toppnum með tólf stig og hefur aðeins fengð á sig tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×