Innlent

Árni ætlar að kæra stjórn Dýraverndarsambandsins fyrir ærumeiðingar

Birgir Olgeirsson skrifar
Árni Stefán Árnason dýraverndarlögfræðingur og Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands.
Árni Stefán Árnason dýraverndarlögfræðingur og Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands. Vísir/stefán/gva
Dýraverndarar á Íslandi eru komnir í hár saman vegna notkunar á Dýraverndaranum. Nú er svo komið að Árni Stefán Árnason ætlar að kæra alla stjórn Dýraverndarsambands Íslands til lögreglunnar fyrir ærumeiðingar og hefur Dýraverndarsambandið sent kvörtun til Neytendastofu vegna notkunar Árna Stefáns á nafni og myndmerki Dýraverndarans.

Dýraverndarinn er tímarit sem Dýraverndarsamband Íslands stofnaði til árið 1915. Útgáfa á tímaritinu hafði legið í dvala frá níunda áratug síðustu aldar. Árið 2011 ákvað Árni Stefán að taka upp notkun á nafninu Dýraverndarinn á samfélagsmiðlum og eignaðist lénið dyraverndarinn.is. Árið 2012 ákvað Dýraverndarsamband Íslands að hefja endurútgáfu á tímaritinu.

„Valdið ruglingi og vanda fyrir félagið“

Þessar deilur á milli Árna Stefáns og stjórnarinnar eiga sér því einhverja forsögu en 2. september síðastliðinn birtist á heimasíðu Dýraverndarsambandsins tilkynning þar sem talað er um óheimila notkun á titli tímarits Dýraverndarsambandsins.

Var sú spurning lögð upp í tilkynningu hvort rétt væri að gefa með villandi hætti til kynna að maður skrifi í nafni félagasamtaka og taldi stjórn sambandsins svo ekki vera.

„Um allnokkra hríð hefur annar aðili notað titil tímaritsins til að kynna skoðanir sínar og atvinnutengda sérfræðiþekkingu á málefnum dýraverndar á netinu (bæði með heimasíðu og á fésbókarsíðu) og hefur það valdið ruglingi og vanda fyrir félagið,“ segir í tilkynningunni.

Þar segist stjórnin hafa beðið Árna Stefán um að láta af þessari notkun fyrir ríflega ári síðan en hann neitaði. Var þá hafist handa við að fá skráð einkaleyfi á þessu heiti hjá Einkaleyfastofu sem fékkst.

Krafðist afsagnar formannsins

Dýraverndarsambandinu barst í kjölfar yfirlýsing frá Árna Stefáni sem birt var á heimasíðu sambandsins þar sem hann skoraði á stjórn Dýraverndarsambandsins að láta af notkun Dýraverndarans tafarlaust svo ekki þurfi að bregðast við henni með lögformlegum hætti. Skoraði Árni Stefán á stjórn sambandsins að krefjast afsagnar formanns þess, Hallgerðar Hauksdóttur.

Í samtali við Vísi segist Árni Stefán ætla að kæra alla stjórn Dýraverndarsambandsins fyrir ósannsögli og aðdróttanir.

„Nóg boðið“

„Sem er búið að vera ríkjandi núna í ár um það sem ég er búinn að vera gera í íslenskri dýravernd. Þar sem verið er að núa mér það um nasir að nýta mér þetta heiti dyraverndarinn.is í fjárhagslegum ávinningi, sem er rangt og ég get sýnt fram á með skattaskýrslu. Mér er nóg boðið núna því ég er búinn leggja mig fram síðastliðin fjögur ár frá því ég byrjaði að fást við málefni dýraverndar sem lögfræðingur að þessu sé haldið fram um mig og mannorð mitt skert með þessum hætti af stærstu dýraverndarsamtökum á Íslandi, sem líklegt er að meirihluti landsmanna sem ekki þekki til mála, taki trúanleg frekar en mín orð.“

Hann segist ætla að afhenda lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kæruna sem hann er með tilbúna gegn stjórninni. Ef lögreglustjórinn vísar þessu fram ætlar Árni Stefán að stefna stjórninni fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Sjá einnig hér.

Harma að þurfa að standa í deilum

Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambandsins, segir stjórnina harma það að þurfa að standa í þessum deilum. „En okkur er enginn annar kostur en að verja eigur félagsins,“ segir Hallgerður sem hefur ekki íhugað afsögn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×