Íslenski boltinn

Arnar: Mótið er eiginlega búið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. vísir/ernir
„Auðvitað er maður drullusvekktur að hafa fengið þetta þarna í endann til að halda okkur inn í þessum bardaga þarna uppi til að gera þetta spennandi en ég held að mótið sé eiginlega svolítið game over,“ sagði Arnar Grétarsson þjálfari Breiðabliks svekktur yfir vítaspyrnunni sem fór forgörðum undir lok leiksins í kvöld.

„Við tökum bara næsta leik og ef við vinnum Víking þá skoðum við stöðuna. Auðvitað er það þannig að við munum fara í hvern einasta leik til að vinna og svo sjáum við hverju það skilar. Við gerðum það klárlega mun erfiðara með því að tapa hér tveimur stigum í kvöld.“

Breiðablik byrjaði leikinn mjög vel og kom Eyjólfur Tómasson markvörður Leiknis í raun í veg fyrir að heimamenn næðu forystunni.

„Mér fannst við byrja leikinn mjög vel og spiluðum fínan fyrri hálfleik. Það hefði ekki verið ósanngjarnt að vera tvö til þrjú núll yfir en ég tek það ekki af markmanninum að hann stóð sig hrikalega vel.

„Leiknisliðið er vel skipulagt og leikmenn mjög vinnusamir og gerðu okkur lífið gríðarlega erfitt í seinni hálfleik. Við sköpuðum ekki mikið í seinni hálfleik og þeir fengu í raun einn séns í seinni hálfleik þar sem þetta hefði getað farið á versta veg og við getað tapað en það hefði ekki verið sanngjarnt því heilt yfir vorum við betra liðið.

„Við fengum dauðafæri á síðustu sekúndu leiksins en þetta var einn af þessum dögum þar sem þetta var svolítið stöngin út og því fór sem fór,“ sagði Arnar sem var að vonum ekki ánægður með sóknarleik síns liðs í seinni hálfleik.

„Ég ætla ekki að taka það af Leiknisliðinu að þeir stóðu sig vel og voru mjög duglegir en engu að síður hefðum við getað gert mun betur. Við vorum mikið með boltann í öllum leiknum en það er ekki nóg.

„Mér fannst við verða óþolinmóðir snemma í seinni hálfleik og þegar menn verða óþolinmóðir þá fara menn að taka rangar ákvarðanir og ákvarðanirnar í seinni hálfleik voru ekki góðar og því fór sem fór,“ sagði Arnar Grétarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×