Fótbolti

Arnar: Ekki það starf sem ég kom til að vinna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Grétarsson hefur sinn starfinu undanfarið ár.
Arnar Grétarsson hefur sinn starfinu undanfarið ár. vísir/getty
Arnar Grétarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, lætur af störfum sem yfirmaður knattspyrnumála hjá belgíska stórliðinu Club Brugge um mánaðarmótin, en hann hóf störf á síðasta ári og gerði upphaflega fjögurra ára samning.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun, en Arnar er ósáttur við ákvörðun stjórnarinnar að minnka starfssvið hans hjá félaginu.

„Maður er auðvitað ekki sáttur við að þetta fari svona. Ég hefði viljað vera lengur því þetta er frábær klúbbur,“ segir Arnar í viðtali við GuðmundHilmarsson í Morgunblaðinu.

Ástæða uppsagnar Arnars er, að nýr þjálfari liðsins, Michel Preud'homme, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Belga, fékk meiri völd en gerist og gengur í belgíska boltanum og líkist starf hans meira stöðu knattspyrnustjóra á Englandi.

„Ég ákvað að gefa þessu tækifæri í byrjun tímabilsins, en maður verður að vera trúr sjálfum sér. Þetta var ekki það starf sem ég kom hingað til að vinna,“ segir Arnar Grétarsson.

Hann segist fyrst og fremst vilja vera áfram í Belgíu og vonast eftir að fá svipað starf, en er tilbúinn til að skoða þjálfarastörf hér heima fari svo að fjölskyldan flytji aftur til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×