Íslenski boltinn

Ármann Pétur: Sparkaði ekki viljandi í hann | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórsarinn Ármann Pétur Ævarsson segir að hann hafi ekki ætlað sér að sparka í Kassim Doumbia, leikmann FH, í leik liðanna í gær.

Eins og sást í umfjöllun Pepsi-markanna á Stöð 2 Sport þá virtist Ármann sparka til varnarmannsins sterka sem skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri FH í gær. Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir ofan.

„Þetta var ekki viljandi. Ég lenti bara á afturendanum og var að reyna að snúa mér. Ég vissi ekki einu sinni að boltinn væri kominn í netið,“ sagði hann í samtali við Vísi í dag.

Hann segir eðlilegt að það hafi verið hiti í mönnum á meðan leiknum stóð. „Við tókumst svo í hendur eftir leik og allt í góðu lagi.“

Báðir fengu þeir svo að líta gula spjaldið hjá Garðari Erni Hinrikssyni, dómara leiksins, eftir að þeim lenti saman í teignum. „Það fannst mér nokkuð harður dómur. Menn voru að takast á líkt og þeir gera í hverri einustu horn- eða aukaspyrnu,“ sagði Ármann Pétur og vildi ekki gera mikið úr þessu.

Þór féll úr Pepsi-deildinni í gær og hann segir að stemningin í búningsklefanum hafi verið dauf eftir því. „Þetta var auðvitað áfall og afar svekkjandi. Fyrir tímabilið reiknuðum við með því að gera betur en við gerðum í sumar. Við komumst í raun aldrei almennilega á skrið og finna kraftinn í hópnum. Því fór sem fór.“

Hann vildi ekkert tjá sig um þjálfaramálin en Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, lýsti sig viljugan eftir leik í gær til að halda áfram með liðið. Ármann Pétur ætlar að einbeita sér að þeim þremur leikjum sem eftir eru í sumar.

„Nú spilum við fyrir stoltið og ætlum að standa okkur vel,“ sagði hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×