Fastir pennar

Andlegur hafragrautur og Isis

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Í dag er dánardægur Cecil Rhodes. Það væri svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að þessi hálfgleymdi imperíalisti sem lést fyrir hundrað og sextán árum hefur verið að gera allt brjálað í Bretlandi síðustu vikur.

„Rhodes skal falla“ er heiti herferðar nemenda við Oxford-háskóla sem krefjast þess að stytta af Rhodes sem prýðir eina af byggingum stofnunarinnar verði fjarlægð.

Rhodes fæddist árið 1853 í Englandi en fluttist ungur til Suður-Afríku. Þar stofnaði hann demantaveldið De Beers, varð einn ríkasti maður heims og forsætisráðherra The Cape Colony, einnar af nýlendum Breta. Rhodes stundaði stuttlega nám við Oxford-háskóla. Þegar hann lést árið 1902, fjörutíu og átta ára að aldri, ánafnaði hann skólanum fé í erfðaskrá sinni og hlaut umrædda styttu að launum.

Nemendur Oxford saka nú háskólann um að hampa rasista og talsmanni harðsvíraðrar nýlendustefnu sem átti þátt í að leggja drög að kynþáttaaðskilnaðarstefnu Suður-Afríku. Þeir segja að styttuna verði að rífa.

Brandarar bannaðir

Krafan um að Rhodes verði fjarlægður er hluti af stærri tískubylgju sem tröllríður breskum háskólum nú um stundir og felst í að banna það sem ekki fellur að ríkjandi siðferðishugmyndum stúdenta. Rannsókn leiddi í ljós að í fimmtíu og fimm prósentum breskra háskóla hafa stúdentaráð fengið samþykkt bann við sérstakri hegðun, klúbbum, popplögum, bröndurum, athugasemdum eða fyrirlesurum. Tjáningarfrelsinu voru sett takmörk í níutíu prósentum háskóla. Í sumum var bannað að selja „óvirðuleg“ dagblöð á borð við The Sun. Bannað var að selja franska skopmyndablaðið Charlie Hebdo. Bannað var að spila popplagið Blurred Lines því textinn er fullur af kvenfyrirlitningu. Fréttabréf rúbbí-klúbbsins í London School of Economics þótti boða of mikla karlrembu. Súludansnámskeið var bannað á þeim forsendum að það upphefði kynlífsiðnaðinn.

Markmið stúdentaleiðtoganna er að gera háskólana að „verndarsvæðum“ fyrir nemendur, stað þar sem engum þarf að líða illa, finnast hann útskúfaður eða heyra eitthvað ljótt.

Það er einkum vegna þess hve hratt almennir ritskoðunartilburðir breiðast út um háskólasvæði Bretlands sem marga hryllir við kröfu stúdentanna í stóra styttumálinu. Heiðursrektor Oxford-háskólans sagði um styttuna af Rhodes að ekki væri hægt að endurskrifa söguna til að þóknast „skoðunum og fordómum samtímans“. Hann bætti við: „Það er eitt sem við megum aldrei sýna umburðarlyndi og það er umburðarleysi. Við megum ekki leyfa háskólunum okkar að breytast í einhæft, bragðdauft úthverfi sálarinnar þar sem það eina sem er á matseðlinum er andlegur hafragrautur.“

Sumir hafa gengið lengra og líkt niðurrifi á styttum af öllu sem okkur mislíkar við það hvernig hryðjuverkasamtökin Isis eyðileggja nú sögulegar minjar í Sýrlandi og Írak.

Árás á vestræn gildi

Síðastliðinn þriðjudag sprengdu íslamskir öfgamenn sem kenna sig við Isis sprengjur í Brussel, höfuðborg Belgíu, sem kostuðu meira en þrjátíu saklausa borgara lífið. Árásin var enn önnur árás á frjálslynd gildi Vesturlanda, tilraun til að brjóta niður grunnstoðir samfélags okkar, frelsi, jafnrétti og umburðarlyndi.

Stúdentar í Bretlandi rífa nú niður gildi sem við höfum barist fyrir kynslóðum saman. Það gera þeir af algjöru sinnuleysi í garð sögunnar og þeirrar hörðu baráttu sem háð var til að ná fram þeim borgaralegu réttindum sem við búum við í dag.

Isis-liðum mun aldrei takast að rústa öllum styttum veraldarinnar. Þeim mun heldur aldrei takast að sprengja upp alla þá sem aðhyllast frelsið sem þeim mislíkar svo mjög.

Það er fyrst þegar við förum sjálf að rífa niður styttur, endurskrifa söguna, ritskoða hugsanir og banna orð sem hriktir í stoðum frjáls samfélags. Ósk hryðjuverkahópa á borð við Isis er að í kjölfar ódæðisverka þeirra gefum við sjálfviljug upp á bátinn frelsishugmyndina; að við fórnum víðsýni, lífsgleði, umburðarlyndi, bjartsýni, náungakærleik, frelsi, jafnrétti og bræðralagi fyrir hömlur sem fela í sér ímyndað öryggi. En það er þá sem misindismennirnir hafa sigrað.






×