Innlent

Andleg heilsa barna getur liðið fyrir tímaskort og fátækt

Óli Kristján Ármannson skrifar
Í rannsókn sem gerð er í tengslum við doktorsritgerð við Gautaborgarháskóla kemur fram að hér er fátækt foreldra ólíklegri til að hafa áhrif á andlega líðan barna en annars staðar á Norðurlöndum.
Í rannsókn sem gerð er í tengslum við doktorsritgerð við Gautaborgarháskóla kemur fram að hér er fátækt foreldra ólíklegri til að hafa áhrif á andlega líðan barna en annars staðar á Norðurlöndum. vísir/daníel
Fjárhagsáhyggjur foreldra barna og ungmenna eru hvergi meiri á Norðurlöndum en hér á landi. Um leið eru neikvæð áhrif bágs fjárhags hvergi minni á andlega líðan barna.

Þetta er meðal þess sem lesa má út úr nýrri rannsókn Hrafnhildar Rósar Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðings, en hún varði doktorsritgerð sína við heilbrigðisvísindadeild Gautaborgarháskóla í gær, 19. desember.

Í samantekt ritgerðar sinnar segir Hrafnhildur andlega vanlíðan mikilvægt lýðheilsuvandamál sem áhrif hafi á verulegan hluta norrænna barna og unglinga.

„Lífsskilyrði og lifnaðarhættir foreldra eru mikilvægir áhrifaþættir heilsu og vellíðanar barna og unglinga en fáar rannsóknir hafa verið gerðar á sambandi daglegra áskorana foreldra og andlegrar heilsu barna. Tilgangur rannsóknarinnar var þess vegna að kanna upplifun foreldra af áskorunum hversdagslífsins og rannsaka nánar tengsl andlegrar vanlíðanar barna og unglinga við tímaskort og fjárhagserfiðleika foreldra.“

Hrafnhildur Rós Gunnarsdóttir
Tekin voru viðtöl við 25 foreldra þriggja til fimm ára barna, auk þess sem spurningalisti var árið 2011 sendur til handahófsúrtaks foreldra 3.000 tveggja til sautján ára barna frá hverju Norðurlandanna fimm, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Svör bárust frá 7.805 foreldrum. 

Hrafnhildur segir að í viðtölunum hafi foreldrar lýst hversdagslífi sem einkenndist af miklum kröfum og væntingum ásamt því að lýsa tímaskorti sem þýðingarmikilli áskorun.

„Niðurstöður spurningalistakönnunarinnar sýndu að 14,2 prósent mæðra og 11,6 prósent feðra upplifðu tímaskort í miklum mæli. Marktækt samband fannst á milli andlegrar vanlíðanar bæði drengja og stúlkna og tímaskorts foreldra.“ 

Þá hafi hátt í helmingur íslenskra foreldra greint frá fjárhagserfiðleikum sem sé talsvert hærra hlutfall en á meðal foreldra á hinum Norðurlöndunum. „Marktækt samband á milli fjárhagserfiðleika foreldra og andlegrar vanlíðanar barna og unglinga fannst meðal þátttakenda í öllum löndunum, nema á Íslandi en þar var sambandið bæði marktækt veikara og ekki tölfræðilega marktækt.“

Í kynningu Gautaborgarháskóla á rannsókn Hrafnhildar kemur fram í máli hennar varðandi skort á marktæku sambandi við fátækt hér að ástæðunnar kunni að vera að leita í fjölda þeirra barna sem deili svipuðum aðstæðum. Vegna þess hve margir líða einhvern skort þá fylgi því ekki sömu neikvæðu tengingar eða vanlíðan. 

„Á hinum Norðurlöndunum býr allur fjöldinn við góðar efnahagsaðstæður þannig að aðstæður þeirra sem líða skort verða augljósari. Svo er mikilvægt að halda því til haga að íslensk börn glíma í minni mæli við andleg veikindi en börn í öðrum löndum og ekki hægt að tengja þau með jafnsterkum hætti við fjárhagsörðugleika foreldranna.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×