Innlent

Amnesty styðji við lögleiðingu vændis

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Umdeild tillaga Tillaga Amnesty hefur vakið mikla reiði meðal mann- og kvenréttindasamtaka.
Umdeild tillaga Tillaga Amnesty hefur vakið mikla reiði meðal mann- og kvenréttindasamtaka. Fréttablaðið/Valli
Fyrir aðalþingi Amnesty International í Dyflinni í næstu viku liggja drög að stefnubreytingu hreyfingarinnar sem miðar að því að Amnesty styðji lögleiðingu vændis víða um heim.

Tillagan er afar umdeild en fjöldi fulltrúa mannréttindahreyfinga og kvenréttindasamtaka hafa varað við henni og hafa meðal annars fengið til liðs við sig þungavigtarfólk í Hollywood til að andmæla málstað Amnesty. Þar á meðal eru leikkonurnar Lena Dunham, Kate Winslet, Meryl Streep og annað nafntogað fólk.

Íslandsdeild Amnesty sendir sína fulltrúa á aðalþingið en deildin hefur enn ekki tekið afstöðu til málsins.

Anna Lúðvíksdóttir
„Eins og er komið fram þá liggur þetta fyrir og það sem við teljum mikilvægast er að hlusta á öll sjónarmið og taka okkar afstöðu á grundvelli mannréttinda þessa fólks sem þarna er um að ræða,“ segir Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty.

Hún segir mikilvægt að fólk setjist niður saman og taki yfirvegaða afstöðu til málsins. Enn sé vika til stefnu og fulltrúar Íslandsdeildarinnar muni fylgjast með öllum hliðum málsins fram að atkvæðagreiðslu. Breytingatillögur við tillöguna gætu til dæmis haft áhrif.

Í tillögu Amnesty er meðal annars lögð áhersla á að mannréttindi fólks sem starfar í kynlífsþjónustu séu varin, að barátta gegn mansali og kynbundnu ofbeldi verði efld.

Í rökstuðningi sem fylgir tillögu Amnesty er því haldið fram að vísbendingar séu um það að glæpavæðing vændis sé líklegri til að skaða þann sem starfar í kynlífsþjónustu. Viðkomandi sé í meiri hættu á að verða fyrir áreiti og ofbeldi auk þess sem réttindi þeirra á borð við trygginga- og lífeyrismál eru óviðunandi.

Hóparnir og einstaklingarnir sem andmæla tillögu Amnesty hafa skrifað samtökunum bréf þar sem miklum vonbrigðum er lýst. Þeir sem skrifa undir bréfið eru sammála því að vernda verði réttindi þeirra sem starfa í kynlífsiðnaði en tillagan muni réttlæta tilvist hórmangara, vændishúsa og verslunar með kynlíf. 

Í bréfinu benda þau jafnframt á að með lögleiðingu vændis í sumum Evrópuríkjum hafi eftirspurn aukist gríðarlega og mansal samhliða því.

Aðspurð um hvort málið umdeilda hafi skapað hita innan Amnesty á alþjóðavísu segir Anna að fólk muni ræða málið af yfirvegun. 

„Á málefnum Amnesty hefur fólk mismunandi skoðanir og fólk ræðir þetta bara á rólegu nótunum,“ segir hún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×