Tónlist

AmabAdamA vekur athygli á matarsóun

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Um þriðjungur þess matar sem ætlaður er til manneldis í heiminum endar í ruslinu. Hljómsveitin AmabAdamA leggur sitt lóð á vogarskálarnar og gefur út lag í dag sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um málefnið.
Um þriðjungur þess matar sem ætlaður er til manneldis í heiminum endar í ruslinu. Hljómsveitin AmabAdamA leggur sitt lóð á vogarskálarnar og gefur út lag í dag sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um málefnið.
„Það eru margir farnir að vekja athygli á matarsóun og reyna að sporna gegn henni og breyta þessari þróun,“ segir Steinunn Jónsdóttir önnur söngkona hljómsveitarinnar AmabAdama.

Lagið, sem kemur út í dag og hefur ekki enn hlotið nafn, er gert í samstarfi við Kvennfélagssamband Íslands sem hafði samband við hljómsveitina og bað þau um aðstoð við að vekja athygli á málefninu en þriðjungur þess matar sem ætlaður er til manneldis í heiminum endar í tunnunni og það eru um 1,3 milljarðar tonna á ári.

„Við sögðum bara já. Þetta er alveg eitthvað sem liggur okkur á hjarta. Við ákváðum að semja þetta lag svolítið út frá okkur. Við erum alveg þessi kynslóð sem er svolítið gjörn á að kaupa bara nýtt í staðinn fyrir að nýta afganga. Þannig þetta var líka vakning fyrir okkur að temja okkur betri siði.“

Hún segir þau í hljómsveitinni leggja áherslu á að tónlistin búi yfir einhverskonar boðskap enda tónlistin kjörin miðill til þess að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri líkt og fjöldi tónlistarmanna hefur nýtt sér í aldanna rás. „Til dæmis er Gaia lag sem fjallar um að við þurfum að fara betur með náttúruna. Við erum samt ekkert að predika lög og reglur yfir fólki en við reynum að semja lög með einhverjum boðskap sem liggur okkur á hjarta og hefur vonandi einhver áhrif.“

Lagið er samið af Gnúsa Yones og hann og Steinunn sömdu textann í sameiningu. Steinunn segir lagið halda í reggístemninguna sem hljómsveitin er þekkt fyrir og söngvararnir þrír skipti á milli sín erindum í laginu, líkt og í smellinum Hossa hossa sem kom út sumarið 2014.

Hún segir verkefnið vissulega hafa vakið þau til umhugsunar um matarsóun og hversu stórt vandamál hún er. „Maður kaupir oft of mikið inn. Við fórum kannski og gerðum stórinnkaup einu sini í viku og svo rann fullt út áður en við náðum að klára það. Við erum bara lítil fjölskylda með tveggja ára strák sem fær morgunmat á leikskólanum þannig það hentar okkur kannski ekkert að vera að gera einhver risainnkaup einu sinni í viku,“ segir Steinunn að lokum.

Texti Lagsins:

Vaknaði upp við vondan draum í þarsíðustu viku

langaði í gott salat en átti ekki papriku

stóð í frekar langan tíma algjörlega ráðþrota

þar til ég ákvað að skoða í skápana hvað þar mætti nota.

Ætti kannski út í búð að hlaupa,

þar sem allt má kaupa

hún er opin bæði nótt og dag.

Nei! um að gera að nýta afganga

ofan'í maga svanga

bætum með því okkar neyslu háttalag.

Ég á alveg frekar auðvelt með að leyfa mér að gleyma,

að margt það sem ég eyði í var ekki ræktað hérna heima.

Heldur hefur það kannski ferðast mörg hundruð kílómetra

ég kaupi það en klára ekki því mig langar í eitthvað betra.

Best að labba út í búð og kaupa bara það sem að maður þarf

og það sem að maður þarf verður það sem ofan'í magan hvarf

á bágt með að horfa á fulla ruslafötuna mína af mat

vil helst takmarka ruslið við mylsnurnar á borðinu þar sem

ég sat.

Watagwan mann,

gemmér ljóta bananann,

þó hann líti illa út þá er hann algjört namminamm,

stundum mat mann nota kann sem að í gær útrann

ef hann lyktar vel þá gerir hann mann ekki sjúkan

og getur verið algjört nammmm.

Við skulum ekki sóa matnum,

veitum athygli öllu því sem hefur verið sagt um

áhrif þess á jörðina sem að okkur er svo annt um

verum meðvitaðri um það sem er að ské.

Ég pæli stundum í því að þegar að amma mín var ung

át fólk reiktan sviðakjamma og súrsaðan hrútspung

fékk epli einu sinni á ári og naut hvers einasta munnbita.

Ætli sá matinn frekar klári sem að þarf fyrir honum að strita?

Fleira fólk og meiri neysla

hraðari framleiðsla

fylgjum því sem stendur umbúðunum á

en það má alveg draga stimpilinn í efa

um að gera að opna og þefa

og með því kannski komast sóun hjá.

Því það er glatað,

hversu mörg landsvæði á jörðinni maðurinn hefur skaðað,

til að rækta meir en er ekki nú úr meira en nóg að hafa?

Ættum að taka höndum saman og temja okkur meiri aga,

nýta matinn betur, henda minna og vandamálið laga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×