Innlent

Allt á huldu um starfsmannaveltu og veikindi hjá ríkisstarfsmönnum

Ríkisendurskoðun lagði til fyrir fjórum árum að fylgst yrði náið með öllum breytingum á innra og ytra umhverfi ríkisstarfsmanna. Þessum ábendingum hefur ekki verið fylgt eftir.
Ríkisendurskoðun lagði til fyrir fjórum árum að fylgst yrði náið með öllum breytingum á innra og ytra umhverfi ríkisstarfsmanna. Þessum ábendingum hefur ekki verið fylgt eftir.
Ríkið veit ekki hversu mikil starfsmannavelta er hjá ráðuneytum og stofnunum. Engar upplýsingar liggja fyrir um fjarvistir og ríkið vinnur ekki spár um mannaaflaþörf fyrir næstu ár eða áratugi.

Fréttablaðið bað skrifstofu kjara- og mannauðsmála hjá fjármálaráðuneytinu að svara nokkrum spurningum um starfsmannamál. Meðal annars var spurt hversu mikil starfsmannaveltan væri, annars vegar hjá háskólamenntuðum starfsmönnum og hins vegar var spurt um heildarstarfsmannaveltuna.

Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og forstöðumaður kjara- og mannauðsskrifstofunnar, segir að mannekla valdi því að þessar tölur séu ekki teknar saman.

„Við höfum lítið komist í þetta vegna þess að við erum ekki nógu og mörg. Við hefðum gjarnan viljað vera með miklu betri tölfræði varðandi starfsmannamál,“ segir Gunnar.

Hann segir að tölurnar séu til í gagnagrunnum, hins vegar vanti allar skilgreiningar, það þurfi að byrja á að skilgreina hlutina áður en hægt sé að vinna tölurnar.

„Menn eru ekki á eitt sáttir um hvernig eigi að skilgreina starfsmannaveltu. Hvaða viðmið eigi að nota. Við höfum lengi ætlað að vinna þessar skilgreiningar en ekki komist til þess.“

Gunnar segir að ekki sé heldur til miðlæg skráning um fjarvistir hjá ríkinu. „Það er hvergi hægt að fá yfirsýn yfir það hversu margir veikindadagar eru hjá ríkinu,“ segir hann og bætir við að ríkið geri heldur ekki neinar mannaflaspár. „Það eru engar spár til um hversu marga ríkisstarfsmenn gæti vantað til starfa á næstu árum og áratugum eða hvernig samsetning hópsins þyrfti að vera.“

Þörf á að taka saman betri upplýsingar

Gunnar segir að menn finni verulega fyrir þörfinni á því að taka saman betri upplýsingar um starfsmannamálin. „Það er stöðugt verið að biðja um upplýsingar um starfsmannamálin. Menn vilja skoða þau út frá landshlutum, kjördæmum og sveitarfélögum,“ segir Gunnar og ítrekar að tölurnar séu til en það vanti fólk til að vinna þær.

Gunnar Björnsson
Hann segir að starfskraftar skrifstofunnar undanfarin misseri hafi farið í að vinna samræmdar launaupplýsingar. 

„Áherslan hjá okkur undanfarin þrjú ár hefur verið að ná samkomulagi við öll 130 stéttarfélög ríkisstarfmanna um með hvaða hætti launaupplýsingum sé skilað svo félögin geti metið út frá eigin forsemdum hvernig launaþróun félagsmanna þeirra er,“ segir Gunnar.

Ekki brugðist við gagnrýni Ríkisendurskoðunnar

Ríkisendurskoðun gaf út í skýrslu árið 2011 þar sem áréttað var að betri upplýsingar vantaði um starfsmannahaldi ríkisins. Í skýrslunni segir:

„Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að starfsmannaskrifstofa fjármálaráðuneytisins fylgist vel með öllum breytingum á innra og ytra umhverfi ríkisstarfsmanna og að nægar og áreiðanlegar upplýsingar séu ávallt til staðar til að unnt sé að taka markvissar ákvarðanir í málefnum sem varða starfsmenn ríkisins en á það hefur skort. Nú liggja til dæmis ekki fyrir á einum stað og með samræmdum hætti upplýsingar um launaþróun milli vinnumarkaða eða starfsstétta, launaþróun stjórnenda og embættismanna, starfsmannaveltu ríkisins í heild eða á einstökum stofnunum þess né fjölda veikindadaga. Brýnt er að úr þessu verði bætt,“

Þrátt fyrir þessar ábendingar Ríkisendurskoðunar hafa menn lítið gert í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×