Innlent

Allar skýrslutökur af börnum í Barnahúsi

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, segir börnum líða betur með að gefa skýrslur í Barnahúsi.
Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, segir börnum líða betur með að gefa skýrslur í Barnahúsi. Vísir/Vilhelm
Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, fagnar því að með frumvarpi til laga um breytingu á meðferð sakamála, sem er á þingmálaskrá dómsmálaráðherra, sé lagt til að allar skýrslutökur af börnum fari fram í Barnahúsi. „Ég held að þannig verði hagsmunum barnanna best borgið.“

Hún segir að frá 2003 til 2013 hafi nánast engin mál komið frá Héraðsdómi Reykjavíkur til Barnahúss. „Það hefur þó orðið breyting á þessu ári því að nú hafa komið frá þeim á annan tug mála til okkar.“

Ólöf greinir frá því að í Héraðsdómi Reykjavíkur sé sérútbúið herbergi til að taka skýrslur af börnum. „Þeir hafa talið það viðunandi en þá hefur frekar verið hugsað um hagsmuni fullorðinna en barna.“

Lögregla hefur tekið skýrslur af börnum í Héraðsdómi Reykjavíkur en í Barnahúsi hafa það yfirleitt verið sálfræðingar og uppeldisfræðimenntaðir starfsmenn sem allir hafi farið á námskeið í Bandaríkjunum þar sem kennd hefur verið aðferð við yfirheyrslu a börnum, að því er Ólöf greinir frá. „Rannsókn sem gerð var á vegum rannsóknamiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining sýndi í öllum liðum að Barnahús kom betur út varðandi líðan og aðkomu barna að húsnæðinu. Aðkoman skiptir máli því að það hefur líka að segja inn í hvaða húsnæði barnið er að fara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×