Innlent

Allar líkur á töfum á millilandaflugi á morgun

Heimir Már Pétursson skrifar
Allar líkur eru á að fimm tíma skæruverkfall flugvallarstarfsmanna skelli á snemma í fyrramálið með tilheyrandi töfum á millilandaflugi. Flugvallarstarfsmenn gerðu Isavia gagntilboð í dag en ólíklegt er að það dugi til að samningar náist í kvöld.

Ef að verður hefjast aðgerðirnar klukkan fjögur í fyrramálið og standa til klukkan níu. Þær munu hafa áhrif á innanlandsflugið en þó aðallega millilandaflugið, þar sem búast má við tveggja til þriggja tíma töfum á öllum brottförum og komum á morgun.

Samninganefnd Samtaka atvinnulifsins gerði þremur stéttarfélögum flugvallarstarfsmanna tilboð síðast liðinn miðvikudag og höfðu félögin það til skoðunar yfir páskahelgina. Samkvæmt heimildum fréttastofu fara flugvallarstarfsmenn fram á um 18 prósenta launahækkun með ýmsum leiðréttingum.

Samninganefndir hafa fundað síðan í morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara og fyrr í dag gerðu stéttarfélögin þrjú Isavia gagntilboð, sem verið er að meta þessa stundina.

„Við höfum sagt að héðan í frá mun ekkert fresta aðgerðum nema undirritaður samningur. Við erum í þessum töluðu orðum að vinna vinnuna okkar. Við erum að kasta á milli okkar hugmyndum og við höfum verið að leggja fram gagntilboð og fá viðbrögð við þeim. Við erum í því núna að vinna þessa vinnu. Ég á von á því að við höldum áfram á meðan við getum talað saman,“ segir Kristján Jóhannsson formaður Félags flugmálastarfsmanna.

Álfheiður Sivertsen formaður samninganefndar Samtaka atvinnulífsins tekur í sama streng, setið verði við á meðan einhver von sé til samninga. Kristján telur ekki svo langt á milli manna.

„Þetta er á þessu óvissutímabili núna. Við erum að kasta á milli okkar hugmyndum og eins og ég hef oft sagt að á meðan að menn eru að tala saman er alla vega von á því að menn nái samkomulagi. En við verðum bara að sjá til hvað dagurinn og kvöldið ber í skauti sér,“ segir Kristján.

Flugmenn hjá Icelandair greiða atkvæði um það fram á næsta þriðjudag að boða til aðgerða, yfirvinnubanns og skæruverkfalla, sem gætu hafist hinn 9. maí náist ekki samningar. Þannig að töluverð óvissa ríkir í flugheiminum og ef ekki nást samningar við starfsmenn Ísavia fyrir 30. apríl, hefja þeir allsherjarverkfall.

Óttast menn í þínum röðum að ríkisvaldið grípi þá inn í með lagasetningu. Það yrði auðvitað alvarlegt mál ef landinu yrði lokað?

„Eigum við ekki að taka einn dag í einu,“ svarar Kristján Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×