Innlent

Ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gegn tveimur konum

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/gva
Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist með ofbeldi að konu, slegið hana hnefahöggi í andlitið og skömmu síðar sparkað í höfuð hennar þar sem hún lá í götunni.

Fram kemur í ákærunni að konan hafi í kjölfarið staðið upp og maðurinn því næst slegið hana hnefahöggi í andlitið. Árásin átti sér stað 1. janúar 2013 á Hverfisgötunni.

Við það hlaut konan heilahristing, eymsli í hársverði, sár innan á neðri vör, los á báðum miðframtönnum í efri gómi auk þess sem það brotnaði upp úr miðframtönn í efri gómi vinstra megin.

Telst árásin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir að hafa veist að annarri konu, sama morgun, og slegið hana hnefahöggi í andlitið svo hún féll í götuna.

Við það hlaut hún heilahristing og eymsli yfir kjálkalið hægra megin.

Telst það varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Konan sem maðurinn á að hafa ráðist fyrst á krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta samtals að fjárhæð kr. 1.500.000, auk dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá því mánuður er liðinn frá því að krafa þessi er kynnt ákærða til greiðsludags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×