Innlent

Ákærður fyrir að koma rúmum 80 milljónum undan

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þess er krafist að maðurinn greiði þær rúmu áttatíu milljónir sem hann á að hafa skotið undan skatti.
Þess er krafist að maðurinn greiði þær rúmu áttatíu milljónir sem hann á að hafa skotið undan skatti. vísir/stefán
Fyrrverandi eigandi kampavínsstaðarins Strawberries hefur verið ákærður af embætti Héraðssaksóknara fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum. Fyrst var sagt frá málinu af RÚV.

Manninum er gert að sök að hafa á árunum 2010 til 2013 stalið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum fyrir einkahlutafélagið sem sá um rekstur staðarins. Hin meinta vantalda velta nemur rúmum 230 milljónum króna. Því skeikaði skattgreiðslum um tæpar 53 milljónir.

Þá er honum gert að sök að hafa sleppt því að telja fram á skattframtölum sínum tekjur, rúmar 64 milljónir króna, sem viðskiptavinir Strawberries lögðu inn á persónulegan bankareikning mannsins. Með því á maðurinn að hafa komist hjá því að greiða 28 milljónir í skatt.

Í málinu er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess einnig krafist að félög í eigu hans sæti upptöku á fjármunum á reikningum sínum.

Að auki er þess krafist að reiðufé sem fannst við húsleit á heimili hans verði gerðt upptækt. Um er að ræða tvær milljónir í krónum, 1.970 dollara, 3.210 evrur og 1.000 danskar krónur. Að endingu er þess krafist að átján bifreiðar, auk skotbómulyftara og báts, sæti eignaupptöku. Umrædd farartæki hafa verið kyrrsett frá því í árslok 2013 en hluti þeirra frá í maí 2014.

Rannsókn lögreglu á máli Strawberries beindist í upphafi að milligöngu staðarins að sölu vændis. Þegar rannsókn hófst kviknaði grunur um að eigandi staðarins hefði gerst sekur um skattalagabrot og peningaþvætti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×