Innlent

Áhyggjur af gróðurhúsum í Hveragerði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Mörg gróðurhús í Hveragerði eru í niðurníðslu.
Mörg gróðurhús í Hveragerði eru í niðurníðslu. vísir/pjetur
„Af sögulegum og umhverfislegum ástæðum er ekki æskilegt að ylrækt flytjist alfarið burt úr miðbænum,“ segir í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í Hveragerði sem leggja til að gert verði varðveislumat gróðurhúsa í bænum. Það verði notað við verndun einstakra gróðurhúsa.

„Þegar mest var voru um 50.000 fermetrar af gróðurhúsum í bænum. Í lok árs 2010 voru 24.000 fermetrar og hefur þeim fækkað enn meira síðan. Má þar nefna niðurrif gróðurhúsa Grímsstaða, Edens og gróðurhúsa við Bröttuhlíð. Gróðurhús í Hveragerði eru því fá eftir og í miðbæ Hveragerðis hafa þau horfið hratt undanfarin ár.“

„Gróðurhúsin hafa verið hluti af Hveragerði frá upphafi byggðar árið 1929 og eru þar af leiðandi órjúfanlegur hluti af ímynd bæjarins og eitt meginsérkenni hans ásamt hverasvæðinu í miðju bæjarins,“ segir áfram í tillögu Samfylkingar. „Það má þó ljóst vera að miðbær Hveragerðis án þeirra yrði vart svipur hjá sjón.“

Afgreiðslu tillögunnar var frestað fram að næsta bæjarstjórnarfundi. Í millitíðinni verður sérstakur vinnufundur bæjarfulltrúa um málið. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×