Innlent

AGS vill að lífeyrissjóðum verði bannað að lána til íbúðakaupa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kynnti skýrslu sína í gær.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kynnti skýrslu sína í gær. vísir/gva
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur til þess að lífeyrissjóðum verði bannað að lána til íbúðakaupa. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur verið stödd hér á landi undanfarnar tær vikur.

Í skýrslunni lýsir nefndin áhyggjum sínum af því að verðhækkanir á fasteignamarkaði gætu aukið á þenslu í hagkerfinu. Húsnæðislán séu farin að aukast og fylgjast þurfi betur með því.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að beita ætti þjóðhagsvarúðartækjum, eins og þörf krefur. Slíkar aðgerðir ætti að fela í sér að takmarka lán í erlendum gjaldmiðli til óvarinna lántakenda og mögulega að banna lánveitingar lífeyrissjóðanna

AGS segir að eftirspurn eftir húsnæði kunni áfram að verða meiri en framboðið og þar með hækka húsnæðisverð enn meira.

„Ef hækkandi framfærslukostnaður heldur erlendu vinnuafli frá landinu gæti þenslan orðið meiri á vinnumarkaði. Frekari háar launahækkanir gætu aukið enn á innlendan eftirspurnarþrýsting,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá segir AGS að Seðlabankinn ætti að viðhalda aðhaldssamri peningastefnu á sama tíma og innlend eftirspurn er jafn mikil og nú er. „Bankinn ætti að grípa minna inn í gjaldeyrismarkað en hann gerði á síðasta ári og sýna aukna þolinmæði gagnvart skammtímasveiflum. Eftir því sem styrking krónunnar bætir verðbólguhorfur gæti myndast svigrúm til vaxtalækkunar.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×