Innlent

Áfall að missa starfsemi Actavis

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar vonar að framleiðslan haldi áfram í einhverri mynd.
Formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar vonar að framleiðslan haldi áfram í einhverri mynd. vísir/gva
Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir fréttir af brottflutningi lyfjaframleiðslu lyfjarisans Actavis úr landi áfall. Lyfjaframleiðslan hefur hingað til verið í Hafnarfirði en mun flytja af landi brott eftir tvö ár og mun fólki vera sagt upp í áföngum. Fyrstu uppsagnir verða eftir átján mánuði. Við flutningana munu þrjú hundruð starfsmenn missa vinnuna.

„Þetta er mikið áfall. Bæði að missa þessa frábæru starfsemi sem þarna hefur verið rekin og svo þarf ekki að lýsa hve dapurt er ef svona mikill fjöldi manna er að missa vinnuna,“ segir Rósa.

„Vonandi mun einhver kaupa þessa aðstöðu og halda þessari starfsemi áfram,“ segir Rósa enn fremur.

„Það er voða misjafnt hvernig menn taka þessu. Það er ekki hægt að segja að þetta sé annað en gott hjá fyrirtækinu að gefa átján mánaða fyrirvara,“ segir Stefán Orri Aðalsteinsson, trúnaðarmaður félaga Eflingar hjá Actavis.

„Það er mikið álag á okkur hvað varðar kostnað á sviði heilsuverndar og við erum að leita leiða til að hámarka framleiðslugetu okkar. Því tókum við þá erfiðu ákvörðun að loka framleiðslustöð okkar og sameina framleiðsluna öðrum verksmiðjum,” sagði Robert Stewart, forstjóri alþjóðaframleiðslusviðs Allergan, móðurfélags Actavis, í viðtali við Stöð 2 í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×