Fastir pennar

Af bónusum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bankar skapa ekki raunveruleg verðmæti í samfélaginu en samt eru störf bankamanna með þeim hæst verðlögðu í samfélaginu. Hvers vegna?

Það vakti athygli á dögunum þegar greint var frá því að ALMC, gamli Straumur-Burðarás, hefði greitt núverandi og fyrrverandi starfsmönnum sínum 3,3 milljarða króna í bónusgreiðslur. Stærstur hluti bónusgreiðslnanna fór til aðeins nokkurra lykilstjórnenda ALMC og fengu þeir hver um sig jafnvirði mörg hundruð milljóna króna í sinn hlut.

Starfsmennirnir fengu ekki svona mikið af peningum fyrir að skapa ný verðmæti. Þessi ofurlaun fengu starfsmennirnir fyrir að standa sig vel í að passa upp á eignir ALMC sem í grundvallaratriðum fólst í því að vera góðir í að innheimta lánasöfn. Nýju viðskiptabankarnir greiða líka bónusa sem nema hundruðum milljóna króna á hverju ári. Arion banki gjaldfærði 477 milljónir króna vegna bónusa á árinu 2014 en Íslandsbanki 258 milljónir.

Hvaða verðmæti skapa bankar í samfélaginu? Hvers vegna verðleggjum við störf bankamanna með þessum hætti? Að einhverju leyti vegna þess að sú goðsögn hefur verið sköpuð í fjármálageiranum á Vesturlöndum að bankar séu „sérstakar stofnanir“ í samfélaginu og að sérstök lögmál gildi um störf bankamanna. Þetta er ítarlega rakið í bókinni The Bankers New Clothes eftir hagfræðiprófessorana Anat Admati og Martin Hellwig.

Adair Turner lávarður, fyrrverandi stjórnarformaður breska fjármálaeftirlitsins (FSA), sagði árið 2010 að það sem fram færi á Wall Street og í fjárfestingarbönkum almennt væri meira og minna „samfélagslega tilgangslaust“. Turner hitti þarna naglann á höfuðið. Það er mjög mikið óeðli tengt árangurstengingum í fjármálakerfinu og bónusar á þeim vettvangi eru í raun siðferðislega skítug fyrirbæri. Bankamenn, sem skapa sjálfir engin verðmæti og leggja ekkert nýtt af mörkum til samfélagsins, taka háar þóknanir byggðar á árangri og vinnu einhverra annarra. Árangurstengd þóknun til starfsmanns fjármálafyrirtækis getur numið fimm prósentum af hagnaði bankans af tilteknu verkefni en starfsmaðurinn sætir engri refsingu ef bankinn tapar peningum. Hann getur bara grætt en undirliggjandi áhætta er borin af einhverjum öðrum. Annaðhvort bankanum sjálfum eða viðskiptavinum hans. Í raun er þetta svipað og að fara til Las Vegas í spilavíti með peninga einhverra annarra og taka prósentur af vinningum en þurfa ekki að borga neitt sjálfur ef allt tapast. Munurinn er bara sá að bankamenn nútímans fara ekki í eiginleg spilavíti heldur stunda þeir fjárhættuspil með fjármálaafurðir eins og afleiður.

Mjög mikil verðmætasköpun á sér stað í samfélaginu án þess að þeir sem standa fyrir henni fái umbun í réttu hlutfalli við framlag. Hvaða skilaboð eru það til samfélagsins þegar fámennur hópur manna skiptir með sér mörgum milljörðum króna fyrir að gæta þess að lánasafn endurheimtist?

Auðvitað mega frjálsir menn semja sín á milli um kaup og kjör og ef einhver vill greiða slíkar þóknanir þá er það hans ákvörðun. En þetta vekur hins vegar spurningar um hvernig við verðleggjum störf í samfélaginu og hver séu tengsl á milli raunverulegrar verðmætasköpunar og launa. Hvernig umbunum við fólki sem skapar raunveruleg verðmæti?






×