Innlent

Ættu að halda í raforkuskattinn

Álverin greiddu 1,6 milljarða króna í skatt í fyrra.
Álverin greiddu 1,6 milljarða króna í skatt í fyrra. Fréttablaðið/BIG
„Mér þykir það undarlegt þegar Bjarni segir að það sé mikilvægt að viðhalda stöðugleika með því að gefa stóriðjunni afslátt af sköttum á sama tíma og launum er haldið lágum til að viðhalda stöðugleikanum,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á ársfundi Samáls að afnám raforkuskatts á álver væri forgangsmál fyrir ríkisstjórnina þar sem það félli vel að markmiðum stjórnarinnar um að treysta efnahagslegan stöðugleika.

Skatturinn var upphaflega lagður á árið 2009 sem hluti af samningi álfyrirtækjanna, Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda. Skatturinn skilaði ríkissjóði 1,6 milljörðum króna í fyrra.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir að skatturinn hafi upprunalega átt að vera tímabundinn en hafi verið framlengdur þrátt fyrir loforð um annað.

Oddný segir að áliðnaðurinn í landinu verði að vera samfélagslega ábyrgur. „Það er eðlilegt að stóriðjan greiði skatt af þeim auðlindum sem hún nýtir. Við getum bara kallað þetta auðlindaskatt. Og við eigum að feta þessa slóð með allar okkar auðlindir, getum ekki gefið þær frá okkur,“ sagði Oddný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×