Innlent

Ættleiðingar barna frá Sýrlandi: Hvorki skynsamlegasti kosturinn né sá sem mest þörf er á

Atli Ísleifsson skrifar
Þúsundir sýrlenskra barna hafast nú við í flóttamannabúðum. Fréttin tengist fréttinni ekki beint.
Þúsundir sýrlenskra barna hafast nú við í flóttamannabúðum. Fréttin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/EPA
UNICEF segir að í ljósi umræðu um mögulegar ættleiðingar barna frá Sýrlandi, sé rétt að leggja áherslu á að sem fyrr sé mikilvægast að sameina fjölskyldur. „Skiljanlegt er að fólk hugsi til þess möguleika að ættleiða börn frá Sýrlandi en það er hvorki skynsamlegasti kosturinn né sá sem mest þörf er á.“

Í frétt á vef UNICEF kemur fram að þau börn frá Sýrlandi sem talað er um sem munaðarlaus eiga langflest fjölskyldu. „Þau eiga föðursystur, móðurbræður, ömmur, afa, systkynabörn, ömmusystur, afabræður og aðra ættingja. Mörg eiga auk þess foreldra á lífi en hafa orðið viðskila við þá. Verkefnið er og verður að ná að sameina þessi börn fjölskyldu sinni og gera þeim kleift að vera saman. Að þessu vinna UNICEF og aðrar hjálparstofnanir hörðum höndum.“

Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, beindi í síðustu viku fyrirspurn til innanríkisráðherra um ættleiðingar á munaðarlausum börnum úr flóttamannabúðum. Spurði hún um hvernig fyrirkomulagið sé á því ef einstaklingur vill ættleiða munaðarlaust barn úr flóttamannabúðum og hvort önnur ríki hafi komið á ákveðnu fyrirkomulagi í þessum efnum.

Sjá einnig: Spyr um ættleiðingar á munaðarlausum börnum úr flóttamannabúðum

UNICEF og fleiri hjálparsamtök leggja áherslu á að ættleiðingar milli landa séu ávallt síðasta lausnin, þegar sameining við fjölskyldu er þaulreynd. „Þetta á sérstaklega við þegar neyðarástand ríkir eins og í Sýrlandi þar sem óeðlilegur þrýstingur getur myndast á fjölskyldur að láta frá sér börn og öryggisástand er það ótryggt að erfitt er að sannreyna hvort börn eigi aðstandendur á lífi eða ekki.

Vert er að geta þess að ríki Mið-Austurlanda leyfa almennt ekki ættleiðingar á milli landa þar sem formlegar ættleiðingar eru ekki það sem tíðkast á svæðinu heldur ótímabundið fóstur. Af þeim löndum sem tengjast inn í átökin í Sýrlandi hefur einungis Tyrkland fullgilt Haag-sáttmálann um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu á milli landa. Bæði íslensk stjórnvöld og flestar alþjóðlegar stofnanir sem starfa í þágu barna krefjast þess að allar ættleiðingar byggist á grundvallarreglum Haag-sáttmálans ásamt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir í frétt UNICEF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×