Lífið

Ætla að opna nýja stöð í plássi Baðhússins

Guðrún Ansnes skrifar
Helga Lind og Elva Rut hafa í nægu að snúast en stöðin verður opnuð þann fjórða maí næstkomandi.
Helga Lind og Elva Rut hafa í nægu að snúast en stöðin verður opnuð þann fjórða maí næstkomandi.
Helga Lind Björgvinsdóttir og Elva Rut Guðlaugsdóttir munu opna svokallaða wellness-stöð í fyrrverandi húsakynnum Baðhúss Lindu í Smáralind.

Munu þær fá húsnæðið afhent 28. þessa mánaðar og nýta tvo sali þessa fjórtán hundruð fermetra lúxusrýmis undir mjúka tíma.

„Stöðin mun heita Balance og munum við einbeita okkur að mjúkum tímum og koma með nýja tíma eins og barre yoga og hot barre, sem eru það heitasta í Bandaríkjunum um þessar mundir, inn í flóruna hér heima,“ segir Helga Lind.

Segjast þær Elva ekki hafa áhuga á að auka umsvif sín frekar enda uppteknar við önnur verkefni. „Ég er dagmamma og Elva er með Plié listdansskólann sinn, svo þetta er nóg fyrir okkur í bili.“

Helga segist jafnframt fullviss um að ekki líði á löngu uns einhver aðili taki að sér tækjasalinn, en það verði ekki þær.

Elfa segir spennandi að takast á við þetta verkefni og segist sjá gríðarlega vakningu á meðal almennings um að gæði skulu sett fram yfir magn þegar kemur að líkamsrækt. „Við munum bjóða upp á gríðarlega krefjandi tíma, en ekki þessi hefðbundnu brjáluðu átök sem þekkjast á líkamsræktarstöðvunum.“

Gert er ráð fyrir að Balance verði opnuð þann fjórða maí næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×