Innlent

ADHD-teymið setur sig á háan

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Fjölmargir bíða eftir greiningu hjá ADHD-teymi Landspítalans. Biðlistinn er tvö ár. Sjálfstætt starfandi sálfræðingar eru ekki sáttir við orð forstöðumanns teymisins.
Fjölmargir bíða eftir greiningu hjá ADHD-teymi Landspítalans. Biðlistinn er tvö ár. Sjálfstætt starfandi sálfræðingar eru ekki sáttir við orð forstöðumanns teymisins.
Orð Sigurlínar Kjartansdóttur, teymisstjóra ADHD-teymisins á Landspítalanum í Morgunblaðinu í síðustu viku, vöktu undrun nokkurra sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Þar sagði hún að vegna rúmlega tveggja ára biðtíma hjá teyminu leitaði fólk til sjálfstætt starfandi sálfræðinga og það hafi skapað vandamál innan teymisins vegna vinnulags þessara sálfræðinga og að sumar greiningar séu ekki viðurkenndar alls staðar.

„ADHD-teyminu tókst að markaðssetja sig þannig að það gæti stundað einokun og þeir sem ynnu þar hefðu einir vit á ADHD fullorðinna,“ segir Jón Sigurður Karlsson, sjálfstætt starfandi sálfræðingur, sérfræðingur í klínískri sálfræði og löggiltur sálfræðingur frá 1977. Meðal viðfangsefna hans er greining á ADHD. „Ég hef með ánægju boðið fólki af þessum biðlista til mín. Ég er í samkeppni og það er mun minni bið hjá mér þannig að ég segi hiklaust að peningunum sé betur varið hjá mér.

Viðtalið við Sigurlín í Mogganum var liður í því að fá meiri pening fyrir teymið. Það átti nefnilega að leggja það niður árið 2013 en ADHD-samtökin lögðust gegn því og starfið var endurskipulagt. Í staðinn krækti Landspítalinn í pening úr Sjúkratryggingum og slapp þannig við niðurskurðarhnífinn.“

Fram kom í viðtalinu að eina niðurgreidda sálfræðimeðferð fyrir ADHD-sjúklinga væri hópmeðferð sem færi fram á daginn og því ætti fólk erfitt með að mæta. Jón gefur lítið fyrir þær skýringar. „Þetta er væl. Þetta er ekkert annað en markaðsmisnotkun hjá ríkinu. ADHD-teymið hefur ekki tíma í einstaklingsmeðferð en hópmeðferð á dagvinnutíma hentar illa þeim sem eru í vinnu. Sú meðferð er ekki í boði hjá Landspítalanum.“

Jón segir að kostnaður við greiningu hjá ADHD-teyminu sé 35.500 krónur en kosti hjá sér 36.000 eða 500 krónum meira. „Fyrir nánast sama verð býð ég greiningu sem gengur lengra en hjá ADHD-teyminu og fer yfir fleiri þætti. Það er ekki þannig að ADHD-teymið hafi einkaleyfi á sannleikanum. Að þetta sé dýrt er rangt því greining og meðferð við ADHD hjá sjálfstætt starfandi getur verið góð fjárfesting og trúlega sú besta fyrir fólk í þessari aðstöðu. Og það eru til fleiri lausnir en ADHD-teymið til að takast á við ADHD.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×