Lífið

Á vit nýrra og spennandi ævintýra

Eftir 18 ár í lögreglunni ákvað Hilmir Kolbeins að takast á við nýjar áskoranir og hóf nám í guðfræði við Háskóla Íslands.
Eftir 18 ár í lögreglunni ákvað Hilmir Kolbeins að takast á við nýjar áskoranir og hóf nám í guðfræði við Háskóla Íslands. MYND/GVA
Starf prests og lögreglumanns kann við fyrstu sýn að eiga fátt sameiginlegt. Mannleg samskipti eru þó stór þáttur í báðum störfum auk þess hæfileika að geta sett sig í spor annarra við ólíkar aðstæður. Sú reynsla og hæfileiki ætti að nýtast lögreglumanninum fyrrverandi Hilmi Kolbeins sem ákvað eftir 18 ára starf í lögreglunni að venda kvæði sínu algjörlega í kross og skrá sig í guðfræðinám við Háskóla Íslands.

Starf lögreglumanns er oft á tíðum erfitt og álagið getur verið mjög mikið. Því sækir Hilmir m.a. slökun og hugarró í eldhúsið en hann er fyrirtaks kokkur. Auk þess galdrar hann reglulega fram eitthvað spennandi sem tengist nördaheimi hans í vinnuskúrnum úti í garði en þessa stundina er hann að smíða módel af Fálkanum, geimskipi Han Solo úr Stjörnustríðsmyndunum. Það er því óhætt að segja að Hilmir feti ekki troðnar slóðir í lífinu.

Félagar í samtökunum 501st taka alltaf vel á móti öðrum félögum. Myndin er tekin í London árið 2016.
Staðnaður í starfi

Hann segir guðfræðinámið hafa blundað mjög lengi í sér en helsta ástæða þess að hann hætti sem lögreglumaður hafi verið sú að hann fann hversu staðnaður hann var í starfi.

„Það var bara ekkert að gerast og ég hafði engan áhuga fyrir starfinu lengur. Embættið hafði farið í gegnum erfiðar og endalausar breytingar með miklum niðurskurði og manneklu sem drap niður allan móral. Auk þess fóru næturvaktirnar mjög illa í mig, ég svaf illa og var geðillur. Eftir að ég hætti á vöktum finn ég hvað ég er allt annar maður, regla komst á heimilislífið og ég nýt dagsins betur.“

Það var ekki bara andlega hliðin, álagið í vinnunni hafði einnig tekið mikinn toll af skrokknum.

„Ég ákvað því í fyrra að ég myndi alls ekki vilja verða þessi skápur í vinnunni sem allir tala um og ég vildi heldur ekki koma fólki í þá stöðu. Því ákvað ég að segja upp, horfa fram á við, hitta nýtt fólk og takast á við nýjar áskoranir.“

Hann segist sakna starfsfélaga sinna sem sé yndislegt og gott fólk.

„Starfsfélagarnir voru fljótir að kalla mig séra Hilmi og heimtuðu að ég annaðist guðsþjónustur og færi með bænir við hin og þessi tækifæri. Fjölskyldumeðlimir voru nú bara sáttir og sögðu þetta eiga við mig og að ég yrði flottur prestur. Það hafa verið margir prestar í ættinni og er sá elsti kominn vel yfir nírætt. Það er því kominn til að annar taki við kyndlinum.“

Hilmir Kolbeins ásamt fjölskyldu sinni í sumarfríi á Íslandi.
Þarf að hlusta vel

Lögreglumaður þarf að bregða sér í mörg hlutverk að sögn Hilmis, allt frá því að vera embættismaður sem fer með vald, yfir í að vera vinur, ráðgjafi og sálusorgari, því reglulega hitti hann fólk á versta tíma í lífi þess en líka þeim besta.

„Að aðstoða við að taka á móti barni er ein sú besta upplifun sem ég þekki eða vita til þess að maður hafi náð að bjarga lífi. En á hinn bóginn þurfum við að tilkynna um andlát og vera inni á heimilum þar sem fjölskyldumeðlimur hefur látið lífið. Þar þarf oft að taka sér annað hlutverk, hlutverk umhyggju og vera klettur fyrir fólk. Sjálfur hef ég rætt við marga sem hafa misst ástvini sína og fengið lögregluna og sjúkralið á staðinn. Flestir segja að eini maðurinn eða konan sem þau muna eftir hafi verið lögreglumaðurinn sem var við hlið þeirra allan tímann og útskýrði fyrir þeim hvað var um að vera og hvað tæki við.“

Starf prestsins og lögreglumannsins eigi því meira sameiginlegt en margur heldur.

„Það að gefa sér tíma til að hlusta á viðkomandi, án þess að grípa fram í fyrir þeim, getur skipt sköpum. Það eiga þessi störf sameiginlegt. Þannig verður starfsreynsla mín úr lögreglunni pottþétt minn fjársjóður í nýju starfi. Að halda sjó og troða marvaðann í 18 ár í mörgum erfiðum málum án þess að brotna saman er dýrmætur lærdómur.“

Hilmir í hlutverki Svarthöfða á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Spennandi nám

Væntingar Hilmis til guðfræðinámsins snerust fyrst og fremst um tækifærið til að opna nýjar dyr í lífi sínu. Hann segir námið mjög spennandi, krefjandi og á köflum erfitt en alveg þess virði.

„Sumir halda að við séum þarna syngjandi sálma og á endalausum biblíunámskeiðum að reyna að finna Guð. En það er langt í frá þannig enda lendir maður í smá glímu við sjálfan sig og trú sína.“

Námskeiðin eru mjög fjölbreytt og kennararnir við deildina eru fræðimenn í fremstu röð. „Ég hefði viljað sjá fleiri nemendur þar enda eru trúmál mikið í deiglunni. Fræðsla og þekking eyðir nefnilega fordómum og við þurfum að standa okkur í þeim málum.“

Nördast í skúrnum

Utan vinnunnar síðustu árin og námsins á Hilmir tvö stór áhugamál. Þeim sinnir hann í bland við samverustundir með fjölskyldunni og gerðu honum áður fyrr betur kleift að aðskilja milli krefjandi lögreglustarfs og heimilislífs. Fyrst nefnir hann ástríðuna fyrir mat en hann er góður kokkur að eigin sögn, unir sér vel í eldhúsi við matreiðslu og bakstur og hefur unnið að veislum í aukastörfum.

„Svo er ég með vinnuskúr í garðinum þar sem ég galdra fram eitthvað spennandi sem tengist nördaheiminum sem ég er með annan fótinn í. Núna er ég t.d. að búa til „studio scale“ líkan af Millennium Falcon sem flestir þekkja sem Fálkann, geimskip Han Solo úr Star Wars. Fullbúið verður það um 80 sm á lengd og um 11 kíló á þyngd.“

Einnig hefur hann gert eftirlíkingar af búningum og leikmunum úr kvikmyndum sem heilluðu hann mest þegar hann var krakki.

„Ég hef alltaf talið mikilvægt að eiga góð áhugamál og halda barninu í sér lifandi. Maður á ekki taka aldurinn of alvarlega því þá verður maður bara gamall og ferkantaður langt fyrir aldur fram. Nýlega ræddi ég t.d. við fermingardreng í Grafarvogskirkju sem fannst ótrúlegt að ég skyldi vera að spila sömu leiki og hann á Playstation 4.“

Hilmir starfaði sem lögreglumaður i 18 ár þar til hann sagði upp á síðasta ári.
Góður félagsskapur

Hilmir er einnig meðlimur í samtökunum 501st (Icelandic Outpost) sem státa af yfir 10.000 meðlimum um allan heim.

„Til að vera gjaldgengur þarf að eiga nákvæma eftirlíkingu af einhverjum búninganna sem vondu kallarnir klæðast í Star Wars myndunum. Þótt ég horfi líka mikið á „cult“ myndir eiga Star Wars myndirnar sérstakan stað í hjarta mínu. Ég heillaðist af þessum heimi og þá sérstaklega af búningunum og geimskipunum.“

Á meðal búninga sem Hilmir hefur sett saman eru þeir sem Boba Fett og Svarthöfði klæddust en búningi þess síðarnefnda hefur hann klæðst fjórum sinnum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, leikið í Spaugstofunni og skartað honum við fjölda viðburða.

„Við höfum verið viðstaddir frumsýningar á Star Wars myndunum og heimsótt Barnaspítala Hringsins og fært þeim gjafir.“

Gegnum samtökin hefur Hilmir kynnst mörgu fólki út um allan heim og eignast góða vini.

„Einnig fáum við erlenda meðlimi í heimsókn og þá reynum við að fara með þá í skoðunarferðir, t.d. kringum Vík í Mýrdal til að skoða upptökustaði frá Rogue One.“

Svarthöfði og Hilmir á tónleikum Sinfóníunnar í Hörpu.
Stefnir á prestinn

Hilmir stefnir á að ljúka BA-prófi í guðfræði eftir ár og að útskrifast mag.theol. árið 2020 og þá tekur við hefðbundin atvinnuleit, hvort sem hann sækist eftir starfi prests eða öðrum störfum.

„Þetta kemur allt í ljós, en fyrst ég stefni á embættisprófið þá set ég auðvitað stefnuna á að verða prestur. Núna hugsa ég fyrst og fremst um að klára námið. Það mun þó strax koma mér til góða í haust þegar ég kenni í fermingarfræðslu með prestunum í Mosfellsbæ. Því má segja að ég sé hægt og bítandi að feta mig inn á þá braut að vinna hjá kirkjunni og kynnast þessu starfi betur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×