Innlent

75 milljónir í síðdegishressingu

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Hér gæða leikskólabörn á Garðaborg sér á þorramat. Hlutfallslega minna er áætlað á börn á leikskólum en til að mynda á frístundaheimilum borgarinnar.
Hér gæða leikskólabörn á Garðaborg sér á þorramat. Hlutfallslega minna er áætlað á börn á leikskólum en til að mynda á frístundaheimilum borgarinnar. Fréttablaðið/Haraldur Jónasson
Foreldrar munu greiða 178,5 krónur á dag fyrir síðdegishressingu barna sinna á Frístundaheimilum borgarinnar á meðan 280 krónur fara í fæði leikskólabarna.Foreldrar hafa á árinu greitt 75 milljónir í síðdegishressingu og af þeirri upphæð hafa 62 milljónir farið í matarinnkaup.

Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015 hækka gjaldskrár frístundaheimila og frístundaklúbba um 3,4% frá og með 1. janúar 2015. „3,4% er áætluð hækkun neysluvísitölu útreiknuð í júlí 2014 fyrir árið 2015 þegar vinna við fjárhagsáætlun stóð yfir,“ segir Kristján Gunnarsson, fjármálastjóri Skóla –og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg.

Bæði vistunargjald og gjald fyrir síðdegishressingu hækka um 3,4%. Vistun 5 daga hækkar í 12.350 úr 11.940 og síðdegishressing í 3.570 úr 3.450 krónum.

Gjald fyrir síðdegishressingu verður því 178,5 krónur á hvert barn.

Síðdegishressing er oftast niðurskornir ávextir, grænmetisbitar eða brauð.

Töluvert hefur verið rætt um kostnað máltíða í vistun barna á vegum Reykjavíkurborgar. Aðeins eru áætlaðar 280 krónur til fæðis leikskólabarns

„Útreikningar okkar matar- og næringarsérfræðinga gera ráð fyrir að matur skv. ráðleggingum landlæknis um næringargildi séu 382 krónur á dag. Við stefnum að því til lengri tíma litið að ná landlæknisviðmiðum en erum í dag að setja kr. 280 í leikskólamatinn,“ segir Kristján.

Í fæði leikskólabarna er innifalin morgunhressing, hádegismatur og síðdegishressing.

Kristján segir 75% kostnaðar fara í hráefni, 10% í búnað og annan rekstur vegna matar og 15% í laun. Foreldrar hafa á þessu ári greitt 75 milljónir til 14. desember í ár í síðdegishressingu. Af þeirri upphæð hafa 62 milljónir farið í matarkaup sem eru 83% af tekjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×