Innlent

271 milljón vegna blóðsýna og greiningar vegna gruns um áfengis- eða fíkniefnaaksturs

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Samkvæmt gögnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi 2.484 sýnatökur farið fram á árinu 2013 og 2.627 á síðasta ári.
Samkvæmt gögnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi 2.484 sýnatökur farið fram á árinu 2013 og 2.627 á síðasta ári. Vísir/Getty Images
Áætlaður kostnaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna sýnatöku og greininga blóðsýna vegna gruns um ölvun við akstur eða akstur undir áhrifum fíkniefna á árunum 2013 og 2014 nemur yfir 271 milljón króna. Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur.



Mestur kostnaður er vegna sýnatöku vegna gruns um akstur undir ávana- og fíkniefnum, eða tæplega 182 milljónir króna. Sýnatökur vegna gruns um ölvun við akstur nemur 24 milljónum en greining á sýnunum úr báðum flokkum 65 milljónir.



Í svarinu segir að gera megi ráð fyrir 5-10 prósenta skekkju varðandi kostnað vegna þeirrar aðferðar sem notuð er til að reikna út kostnaðinn. Ekki liggja fyrir upplýsingar um kostnað í hverju tilviki og því hafi tíðni kostnaðarliða verið áætluð og margfölduð með fjölda sýna til að svara fyrirspurninni.



Ólöf upplýsir einnig að samkvæmt gögnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi 2.484 sýnatökur farið fram á árinu 2013 og 2.627 á síðasta ári. Samtals hafa því 5.111 blóðsýni verið tekin og greind á þessu tveggja ára tímabili.



Í svarinu er gerður sá fyrirvari að sýni geta verið tekin úr fleiri en einum einstaklingi í hverju máli ef óljóst er hver var ökumaður og stundum eru tekin fleiri en eitt sýni úr sama einstaklingi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×