Innlent

2.300 ódýrar leiguíbúðir fyrir tekjulága á næstu fjórum árum

Sveinn Arnarsson skrifar
Reisa á 2.300 íbúðir með 12 prósenta stofnframlagi ríkis og 18 prósenta mótframlagi sveitarfélaga.
Reisa á 2.300 íbúðir með 12 prósenta stofnframlagi ríkis og 18 prósenta mótframlagi sveitarfélaga. vísir/vilhelm
Ráðist verður í það verkefni að reisa um 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum með opinberum stuðningi til að stuðla að ódýrum leiguíbúðum fyrir fólk með lágar og meðaltekjur og er verkefnið byggt á danskri fyrirmynd. Eygló Harðardóttir velferðarráðherra er ánægð með að sjá þessi skref stigin.

Eygló Harðardóttir
„Þetta verða svokölluð leiguheimili sem verða um fjórðungi ódýrari en leiguíbúðir á almennum markaði. Nú förum við í samvinnu við sveitarfélög og aðra aðila þar sem við veitum stofnframlög til byggingar ódýrs leiguhúsnæðis,“ segir Eygló en hún lagði mikla áherslu á að klára þetta mál fyrir kosningar. „Ég hef barist fyrir þessu lengi og er því mjög ánægjulegt fyrir mig að sjá þetta verða að veruleika.“

Hermann Jónasson, forstjóri Íbúða­lánasjóðs, segir marga hafa haft samband við sjóðinn sem eru reiðubúnir til samstarfs um byggingu leiguhúsnæðis. Í framhaldi verða haldnir fundir um allt land þar sem stofnframlag hins opinbera verður tilkynnt. 

Benedikt Sigurðarson
Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búseta á Norðurlandi, telur vankanta á nýju lögunum. „Svokallaðar almennar íbúðir eru aðeins fyrir fólk með lágar og meðaltekjur. Það er ekki æskilegt að byggja fyrir aðeins þann hóp því þessi tekjuhópur eins og aðrir á að lifa innan um aðra tekjuhópa,“ segir Benedikt. Hann telur eðlilegt að ríkið komi að því að byggja upp leigumarkað fyrir allan almenning á ásættanlegum kjörum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×