Innlent

15 stiga hiti á Siglufirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði.
Hlý sunnanátt hefur leikið um landið í dag og hitastig farið í tveggja stafa tölu á nokkrum stöðum norðan- og austanlands. Siglufjörður á hitamet dagsins, 15,2 gráður, og álíka hlýindi mældust á Vopnafirði, 14,8 gráður, og á Seyðisfirði, 14,7 gráður, samkvæmt gögnum Veðurstofu Íslands. Á Akureyri komst hitinn í 12 gráður.

Í Reykjavík hefur einnig mælst ágætis hiti í dag, miðað við janúarmánuð, en hitinn í borginni fór í 8 gráður. Þar hefur einnig verið talsverð úrkoma, öfugt við veðurstöðvarnar fyrir norðan og austan, þar sem var þurrt og jafnvel léttskýjað um miðjan dag.

Þetta er þó skammgóður vermir. Veðurstofan gerir ráð fyrir að hann snúist í suðvestanátt í kvöld með kólnandi veðri og að á morgun verði hiti víðast hvar í kringum frostmark, fari þó niður í 5 stiga frost norðantil síðdegis, en verði yfirleitt frostlaust við suðurströndina.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×