Lífið

13 heimahúsum breytt í tónleikastaði

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Kátir Piltar klárir í slaginn. Aftari röð f.v. Hallur Helgason, Hafsteinn Valgarðsson, Hjörtur Howser, Jakob Bjarnar Grétarsson og Magnús Einarsson. Fremri röð f.v. Atli Geir Grétarsson og Eysteinn Eysteinsson
Kátir Piltar klárir í slaginn. Aftari röð f.v. Hallur Helgason, Hafsteinn Valgarðsson, Hjörtur Howser, Jakob Bjarnar Grétarsson og Magnús Einarsson. Fremri röð f.v. Atli Geir Grétarsson og Eysteinn Eysteinsson Vísir/Stefán
„Þetta er í raun hugmynd frá Færeyjum vegna þess að Jón Tyril bauð mér og Kristni Sæmundssyni á svipaða hátíð í Færeyjum í nóvember á síðasta ári, ég komst reyndar ekki en Kiddi fór þangað og sá þar hversu mögnuð hátíð þetta er,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson einn skipuleggjenda tónlistarhátíðarinnar sem kallast Heima, en um ræða tónleikahátíð sem fram fer á þrettán venjulegum heimilum í Hafnarfirði.

Menningar- og listafjelag Hafnarfjarðar heldur tónlistarhátíðina en í stjórn félagsins sitja þau Erla S. Ragnarsdóttir, Ingvar Björn Þorsteinsson, Kristinn Sæmundsson, Ólafur Páll Gunnarsson og Tómas Axel Ragnarsson. Öll eiga þau það sameiginlegt að vilja sjá Hafnarfjarðarbæ lifna við og dafna í takt við öflugt og lifandi menningarlíf. Heima er jafnframt hluti af bæjarhátíðinni Björtum dögum.

Heima fer fram í Hafnarfirði í kvöld en þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin fer fram. Hugmyndin að tónlistarhátíðinni kemur frá Færeyjum en Færeyingar segjast þó hafa fengið hugmyndina frá Íslendingum. Hún byggist á því að tónlistarmenn úr ýmsum áttum halda stutta tónleika í þrettán heimahúsum miðsvæðis í bænum og hátíðargestirnir rölta á milli húsa og hlusta og njóta. „Hvert tónlistaratrði kemur fram tvisvar sinum á sitt hvoru heimilinu. Þeir áhugasömustu og spretthörðustu ættu jafnvel að geta náð fjórum tónleikum á kvöldinu en dagskráin stendur frá klukkan 20.00 til 23.00,“ bætir Ólafur Páll við.

Að tónleikadagskránni lokinni tekur við ball með öllu tilheyrandi á Fjörukránni og í Gaflaraleikhúsinu fram eftir nóttu. Á Fjörukránni mun eiga sér stað söguleg stund er Kátir Piltar tjalda öllu til og koma saman á nýjan leik eftir ára hlé. Í Gaflaraleikhúsinu verður opinn míkrafónn fyrir Hall Joensen frá Færeyjum og félaga og öll góð partýljón sem þora og geta.

„Við erum fyrst og fremst að rifja upp gömlu meistaraverkin, sem hafa allt of lítið heyrst. Við hlökkum til og þetta verður mjög gaman,“ segir Atli Geir Grétarsson, forsöngvari Kátra pilta. Hljómsveitin Kátir piltar kemur saman í tilefni hátíðarinnar Heima. 

Um er að ræða sögulega endurkomu því þessi fornfræga hljómsveit hefur ekki komið saman á sviði í um tuttugu ár. „Þegar heimabærinn kallar svörum við að sjálfsögðu kallinu. Við höfum æft af kappi og verðum klárir í slaginn held ég,“ segir Atli Geir. 

Aðrir í hljómsveitinni eru Hallur Helgason, Hjörtur Howser, Jakob Bjarnar Grétarsson og Steinn Ármann Magnússon. Sveitin gaf út sína fyrstu plötu árið 1988 sem hét Einstæðar mæður. Þá kom platan Blái höfrungurinn út árið 1992.

Atli segir að nú sé verið að pússa ryðgaða gítarstrengi auk þess sem þeir Hafsteinn Valgarðsson bassaleikari, Eysteinn Eysteinsson trommuleikari og Magnús Einarsson gítarleikari verða Kátum piltum til halds og trausts á tónleikum sem fara fram á Fjörukránni og hefjast klukkan 23.00.

Nánar um hátíðina hér og um Bjarta daga hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×