Innlent

„Við látum aldrei þekkt andlit ganga fyrir alvarleika máls“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Dorrit þurfti aðhlynningu á slysadeild í gær eftir að hafa hrasað á göngu.
Dorrit þurfti aðhlynningu á slysadeild í gær eftir að hafa hrasað á göngu. Vísir/Ernir/Anton
Bráðamóttaka Landspítalans vinnur eftir forgangsröðunarkerfi sem byggir á alvarleika mála þegar kemur að því að veita bráðatilfellum meðferð. Athygli vöktu í gær fréttir um að Dorrit Moussaieff, forsetafrú, hefði verið tekin fram fyrir aðra sjúklinga á bráðamóttöku, þar á meðal sex ára dreng með brotinn sköflung.

Samkvæmt heimildum Vísis hafði forsetafrúin hrasað á göngu ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta, og hruflað sig á hendi. Um minniháttar meiðsl var að ræða.

Margrét Heiður, móðir drengsins sem beið á slysadeild eftir aðhlynningu, sagði í samtali við Stundina í gær að forsetafrúin hefði verið tekin framfyrir fólk sem virtist mun slasaðra heldur en hún. Drengurinn hennar hafði lent í reiðhjólaslysi með þeim afleiðingum að reiðhjólastýrið lenti í höfði hans og sköflungur hans brotnaði.

Margrét hafði í fyrstu farið með strákinn sinn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands en vegna alvarleika áverka hans var ákveðið að senda hann til Reykjavíkur. Þau biðu á biðstofu en Margrét segir að tveimur mínútum eftir komu Dorritar hafi hún verið kölluð inn.

Tveggja tíma bið fyrir aðra konu

„Það var kona sem sat rétt hjá okkur sem sagðist hafa beðið í tvo tíma þegar við komum inn. Hún var greinilega mjög kvalin. Við ræddum hvað okkur þætti það vera asnalegt að það væri forgangur af þessum ástæðum. Það ætti að forgangsraða eftir alvarleika áverka, hefði maður haldið,“ sagði hún.

Bára Benediktsdóttir, mannauðstjóri flæðisviðs, sem bráðamóttaka heyrir undir, segist ekki geta tjáð sig um einstaka mál en þvertekur fyrir að manneskja með þekkt andlit geti búist við einhvers konar sérmeðferð. Við notumst við kerfi, stýrt kerfi, og það fer eftir alvarleika málanna hvernig er tekið inn. „Við látum aldrei þekkt andlit ganga fyrir alvarleika máls.“

Sjúklingum leyft að bíða annars staðar

Hins vegar segir Bára að hvert tilvik sé metið sérstaklega og að bráðamóttakan leitist við að veita sjúklingum sínum þá aðstoð sem þörf er á hverju sinni. „Ég er ekki að ræða forsetafrúnna neitt sérstaklega, en oft kemur fólk hingað inn grátandi, í miklu uppnámi eða kvíðakasti og þá tökum við fólk og leyfum því að bíða annars staðar.“

Hún segir að fólk sé oft tekið innfyrir af ýmsum ástæðum. Hún getur þó ekki staðfest hvort forsetafrúin hafi þurft að bíða eftir aðhlynningu eftir að inn var komið. „Við ræðum ekki persónuleg mál einstakra sjúklinga, við megum það ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×