Lífið

"Þetta er eins og trúarbrögð“

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Godflesh er ein áhrifamesta sveitin í jaðartónlist.
Godflesh er ein áhrifamesta sveitin í jaðartónlist.
„Ég fékk símtal frá einum sem grét bara, þetta er eins og trúarbrögð,“ segir Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri rokkhátíðarinnar Eistnaflugs, en í gær var tilkynnt að iðnaðarrokksdúóið Godflesh muni troða upp á hátíðinni, sem fer fram í Neskaupstað 10. til 12. júlí. „Ég var mjög ánægður með það símtal, hann bókstaflega grét af hamingju.“

Godflesh og annar forsprakki sveitarinnar, Justin Broadrick, eru gríðarlega áhrifamikil nöfn í jaðartónlistarsenunni en Broadrick hefur verið meðlimur í fjöldanum öllum af hljómsveitum svo sem Napalm Death, Jesu og Techno Animal.

Auk Godflesh voru ellefu aðrar hljómsveitir kynntar til leiks, meðal annars gríska gotamálmssveitin Rotting Christ og sænska sveitin In Solitude en platan þeirra Sister var kosin fjórða besta þungamálmsplatan af Rolling Stone í fyrra.

Tónleikarnir verða haldnir í íþróttahúsinu í Neskaupstað í fyrsta skipti í sögu hátíðarinnar en því verður breytt í allsherjar tónleikastað að sögn Stefáns. „Það verður nóg pláss fyrir alla en það kláraðist í fyrra,“ segir hann.

Þá er mottó hátíðarinnar: „Ekki vera fáviti“, auðvitað enn þá í gildi. „Ef þú ert fáviti þá skaltu alveg spara þér þennan pening. Síðan eru svo margir sem hafa mætt svo oft að þeir halda eiginlega hátíðina með okkur og passa upp á allt og alla.“

Hér fyrir neðan má heyra plötuna sígildu Streetcleaner með Godflesh.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×