Lífið

„Starstruck“ að vinna með Stefáni Hilmars

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Það var ljósmynd af göngustígnum sem var upphafið að samstarfi Snorra og Stefáns.
Það var ljósmynd af göngustígnum sem var upphafið að samstarfi Snorra og Stefáns. Vísir/GVA
Tvær af myndum Snorra Björnssonar ljósmyndara hafa prýtt plötur Stefáns Hilmarssonar söngvara. Snorri tók ljósmyndina sem prýðir forsíðu plötunnar Húm sem Stefán gaf út árið 2009. En myndina tók Snorri þegar hann var aðeins fimmtán ára gamall.

„Ég fór á ljósmyndanámskeið og langaði svo til þess að koma mynd í blaðið af því að ég heyrði að einn fyrrverandi nemandi námskeiðsins hefði náð þeim merka árangri,“ segir Snorri glaður í bragði.

„Ég var úti öll kvöld að reyna að fikra mig áfram og tók mynd af göngustíg í hverfinu. Sú mynd endaði í Morgunblaðinu,“ segir Snorri, sem var að sjálfsögðu ánægður með árangurinn.

„Síðan heldur lífið áfram og nokkrum mánuðum seinna fæ ég tölvupóst frá Stefáni um að hann langi til þess að hafa myndina á plötuumslaginu sínu. Þetta var smá svona „starstruck“-móment og að sjálfsögðu samþykkti ég það.“ Þetta varð upphafið að samvinnu Snorra og Stefáns.

Nýverið kom út önnur jólaplata Stefáns, Í desember, og myndaði Snorri söngvarann fyrir plötuumslagið. Á ljósmyndinni er andrúmsloftið allt hið notalegasta og Stefán situr brosandi við skíðlogandi arineld.

„Ég kom heim til hans eitt kvöldið með endalaust af ljósabúnaði. Tilbúinn að leggja allt undir mig og búa til stúdíó heima hjá honum. En svo þegar allt kom til alls notuðum við ekkert af ljósunum, bara einn borðstofulampa og arineldinn.“

Snorri segir talsverða eljusemi hafa þurft til þess að halda arineldinum gangandi og að myndatakan hefði vafalaust ekki gengið svona vel án góðrar aðstoðar. „Anna Björk, konan hans Stefáns, sá um að halda eldinum logandi og það var alveg full vinna að gera það. Á meðan var sonur hans, Birgir Steinn, í horninu að lesa upp fimmaurabrandara,“ en sjálfsagt má rekja einlægt bros Stefáns til brandaranna.

Á vefsíðu Stefáns, stefanhilmarsson.is, er hægt að kaupa jólaplötuna, Í desember, áritaða og jafnframt fá plötuna senda heim að dyrum.

Í desember, Jólaplata Stefáns Hilmarssonar.MYND/SNORRIBJÖRNSSON





Fleiri fréttir

Sjá meira


×