Innlent

„Ótrúlegt að fólk hafi þetta í sér“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Heimilisköttur í Kópavogi er helsærður eftir að einhver skaut hann með kraftmikilli loftbyssu fyrr í vikunni. Eigandinn er miður sín og segist ekki skilja hvernig fólk geti fengið sig til að skjóta saklaus dýr. 

Kötturinn Pandi fannst í bílskúr eiganda síns, Vífils Gunarssonar, við Kársnes í Kópavogi á sunnudagskvöld. Vífill hélt í fyrstu að einhver hefði keyrt á köttinn en röngtgenmyndataka hjá dýralækni leiddi loftbyssukúluna í ljós. Köturinn er veikburða og illa farinn eftir skotið.

„Eins og staðan er núna þá lítur út fyrir að hann muni ekki ná sér. Ég bara bíð og geri það sem ég get og konan mín líka. Við vonum að það gerist eitthvað kraftaverk,“ segir Vífill.

Hann gerði lögreglu strax viðvart en loftbyssur heyra undir vopnalög. Þó að í þeim séu plastkúlur geta þær unnið mikinn skaða.

„Ég bara skil þetta ekki og trúi ekki að fólk hafi þetta í sér. Ég er sár og reiður en bara á ekki til orð yfir þessu öllu saman,“ segir Vífill.

Málið hefur vakið mikla reiði á meðal dýravina, en sá sem skaut af loftbyssunni er ófundinn. Vífill vill biðla til þeirra sem kuna að vita eitthvað um málið, eða koma að svipuðum tilfellum í framtíðinni, að hafa samband við lögregluna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×