Innlent

„Okkur er sagt að kynlíf selji og þá bara selja þeir það“

Klámvæðingin hefur gegnsýrt auglýsingaheiminn. Þetta segir félagsfræðingur sem hefur rýnt í birtingarmyndir kynjanna í auglýsingum.

Nýlegar fregnir frá framhaldsskólum landsins um klámvæddar uppákomur voru meðal annars kveikjan að því að félagsfræðingafélagið hélt á dögunum málþing sem bar yfirskriftina Unga fólkið og klámmenningin. Bára Jóhannesdóttir félagsfræðingur er meðal þeirra sem þar héldu erindi og fjallaði um klámvæddar auglýsingar.

„Okkur er alltaf sagt að kynlíf selji og þetta er notað stanslaust á misgrófan hátt og þessar auglýsingar sem ég var að fjalla um eru frá frægum fatahönnuðum til dæmis eins og Tom Ford, Dolce and Gabbana og Calvin Klein. Þetta eru risafyrirtæki á alþjóðavísu og nota grimmt vísanir í klám."

Meðal þeirra sem í dag birta umdeildar myndir er fatamerkið American Apparel og hefur Bára vakið sérstaka athygli á auglýsingum þeirra.

„Þetta verður svo eðlilegt. Kynlíf er eðlilegur hlutur, berir líkamar eru eðlilegur hlutur en þegar þú ert borinn á borð eins og þú sért hlutur, það er svo auðvelt að afpersónugera fólk."

Þá segir Bára að stundum sé hreinlega óljóst hvað sé verið að auglýsa. „Konur eru notaðar til að auglýsa skó, bíla, nefndu það. Það er allt leyfilegt virðist vera."

En af hverju telur Bára að þetta sé svona?

„Er það ekki bara markaðurinn sem ræður? Okkur er sagt að kynlíf selji og þá bara selja þeir það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×