Lífið

„Minn helsti undirbúningur er að vera í símanum og áreita fólk“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Hér er Jón Gunnar ásamt Söndru Björgu Helgadóttur eftir hlaupið árið 2011.
Hér er Jón Gunnar ásamt Söndru Björgu Helgadóttur eftir hlaupið árið 2011. Mynd/úr einkasafni
„Ég safnaði nákvæmlega 1.246.500 krónum í fyrra og ofan á það lagði Velferðarsjóður barna 250.000 beint inn á Rjóðrið. Ég reikna með því að ég geti safnað enn meiru núna,“ segir athafnamaðurinn Jón Gunnar Geirdal.

Hann ætlar að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Rjóðrinu, hvíldar- og æfingarheimili fyrir langveik börn, í ár eins og hann hefur gert síðustu ár. Í fyrra var hann sá einstaklingur sem safnaði mestum peningum í áheitasöfnun Íslandsbanka en fast á hæla hann fylgdi stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson. En hver ætli verði helsti keppinautur Jóns Gunnars í ár?

„Það væri gaman ef það væri vinur minn Ólafur Darri. Við vorum hnífjafnir undir lokin í fyrra.“

Jón Gunnar er í einu orði sagt óþolandi, að eigin sögn, þegar hann safnar áheitum fyrir hlaupið.

„Nú er „operation óþolandi“ byrjað. Nú verður blásið í óþolandi herlúðra og fólk getur farið að fá kvíðahnút í magann,“ segir Jón Gunnar og bætir við að enginn sé óhultur þegar hann fer á fullt að safna áheitum.

„Minn helsti undirbúningur er að vera í símanum og áreita fólk. Það er enginn látinn í friði þegar ég byrja að hringja og væla út peninga.“

Jón Gunnar hljóp tíu kílómetrana á rúmlega fjörutíu mínútum í fyrra en hefur best náð 38.54 mínútum. Hann hefur hlaupið lengra en það endaði með ósköpum.

„Ég hef engan drifkraft í maraþonvegalengdir. Reykjavíkurmaraþonið er eitt skemmtilegasta hlaup ársins og ég vil ekki eyðileggja drifkraftinn með því að líða illa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×