Fótbolti

„Leið eins og ég ætti heima þarna“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta lék vináttuleik við Mexíkó í nótt. Ísland tapaði leiknum 3-0 en þrátt fyrir það voru landsliðsmenn og þjálfarar nokkuð brattir eftir leikinn.

Guðmundur Benediktsson er í Bandaríkjunum og mátti sjá viðtöl hans við menn eftir leik í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Nei, ég hef engar áhyggjur ef ég á að segja eins og er,“ sagði Emil Hallfreðsson er Guðmundur spurði hann hvort það væri áhyggjuefni að tapið í nótt var það stærsta síðan Heimir Hallgrímsson tók við liðinu.

„Auðvitað viljum við gera okkar besta en það er alltaf aðeins öðruvísi bragur á þessum leikjum.“

Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari, sagði leikinn hafa svarað mörgum af þeim spurningum sem þjálfararnir voru með og var því nokkuð ánægður þar sem tilgangur verkefnisins var að fá svör.

„Við lögðum upp með leikinn eins og við spiluðum, þeir voru ekkert að skapa sér nein færi og þegar við fengum boltann vorum við að spila hratt og fara upp kantana þar sem þeirra veikleikar voru. Við bara kláruðum ekki færin okkar,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson.

Rúnar Alex Rúnarsson var í marki Íslands og var hann hæstánægður með frumraun sína á stóra sviðinu, þó hann hafi spilað aðra minni vináttulandsleiki fyrir Ísland.

„Mér leið mjög vel, eins og ég ætti heima þarna. Bæði að spila á svona stóru sviði og að spila með þessu liði.

Viðtölin má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×