Innlent

„Jafn eðlilegt og að binda Golden Retriver við ljósastaur“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Leiðarahöfundirinn segir ekki óalgengt að ganga fram á „yfirgefin“ börn í barnavögnum á götum Reykjavíkur.
Leiðarahöfundirinn segir ekki óalgengt að ganga fram á „yfirgefin“ börn í barnavögnum á götum Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm
„Í landi jökla, eldfjalla og goshvera er ein áhugaverðasta sjónin öll sofandi börnin.“ Svona hefst leiðari kanadíska blaðamannsins Jennifer Lang um heimsókn hennar til Íslands en hana rak í rogastans þegar hún sá fjöldann allan af barnavögnum á götum Reykavíkur

„Þeir eru alls staðar í höfuðborginni; á fjölförnum breiðstrætum, friðsælum íbúagötum og fyrir utan búðir, kaffihús og veitingastaði. Flest barnanna eru sofandi í vögnunum en ekkert foreldri í augsýn.“ Lang segir þessa sjón koma ferðamönnum í opna skjöldu enda flestir óvanir því að að skilja börn eftir „afskiptalaus“. „Í augum Íslendinga er það að skilja barn eftir fyrir utan hins vegar jafn eðlilegt og að binda Golden Retriver við ljósastaur,“ bætir hún við.

Lang tók markaðsfræðinginn Katrínu Friðriksdóttur tali sem tjáði henni að Íslendingar hafi barnavagna sína undir berum himni jafnt á sumrin sem og á veturna. Hún hafi sjálf til að mynda drukkið kaffi á kaffihúsi í um klukkustund meðan sex mánaða gömul dóttir hennar svaf í vagni sínum fyrir utan. „Íslendingar eru nánast helteknir af því að láta börn sín sofa úti,“ sagði Katrín og yppti öxlum. „Það er eina leiðin til að gera þetta.“ „Þú ert álitinn furðulegur ef þú vilt að þau sofi inni,“ bætti vinkona hennar, Laufey Skúladóttir, þá við.

Jennifer Lang segir að smæð Íslands og lág glæpatíðni hérlendis spili stærsta rullu í því að foreldrar geti leyft sér að geyma barnavagna sína úti á götu meðan þeir skreppi sjálfir inn og klári erindagjörðir sínar. Ísland sé lítil eyja og að það tæki ekki langan tíma að hafa hendur í hári þess sem reyndi að stela barni úr barnavagni.

Fyrir vikið hafa foreldrar leyft börnum sínum að hvílast utandyra svo kynslóðum skiptir og vilja þær íslensku rekja það allt til fyrstu ára Íslandsbyggðar, þegar hreint loft var af skornum skammti inni í torfkofunum.

Laufey segir í samtali við Lang að hún hafi ekki áttað sig á því hvað þetta gæti komið útlendingum spánskt fyrir sjónir fyrr en hún flutti sjálf til Seattle og leyfði níu mánaða barni sínu að sofa í vagni fyrir utan kaffihús. Fyrir vikið hafi hún fengið mörg hornaugu, „meira að segja frá hippunum,“ og einn maður hafi meira að segja gengið upp að henni og sagt þetta ekki vera eitthvað sem „góð móðir myndi gera.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi „sérkennilega hegðun“ íslenskra foreldra kemst í heimsfréttirnar en frægt er þegar Svanhildur Hólm kynnti spjallþáttastjórnandann Opruh Winfrey fyrir „afskiptalausum börnum“ í þætti hennar árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×