Lífið

„Ég held að daður geti verið mjög hollt“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Hjúkrunarfræðingurinn Ragga Eiríks mætti í morgunþátt FM957 í morgun til að tala um daður á vinnustöðum og hvort það væri hollt. Taldi hún þetta tilvalinn tímapunkt til að ræða það þar sem alls kyns veislur eru fyrirhugaðar á vinnustöðum í aðdraganda jóla.

„Fólkið sem er búið að vera að gjóa augunum alveg síðan síðustu áramót hefur verið að bíða eftir tækifæri til að drekka í sig svolítið af sjálfstrausti,“ segir Ragga eins og heyra má í meðfylgjandi hljóðbroti.

„Kannski er einhvers konar daður búið að ganga heillengi á vinnustaðnum og síðan er beðið eftir þessari afsökun sem hömluleysi áfengisins leyfir,“ bætir hún við.

Hún segir það ekki skrýtið að vinnufélagar myndi djúp tengsl þar sem við eyðum meiri tíma í vöku með vinnufélögunum en mökum.

„Stundum fer þetta yfir í einhvers konar fantasíur eða daður. Kannski augngotur eða bros,“ segir hún og bætir við að hver og einn þurfi að meta hvort daður á vinnustað sé rangt.

„Ég held að daður geti verið mjög hollt. Ég held að það geti bjargað samböndum stundum,“ segir Ragga en hún telur að sú orka sem fæst úr daðri geti verið tekin með heim til að blása lífi í samband sem stendur á brauðfótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×