Innlent

„Ansi súrt“: Rafmagnslaust í Vestmannaeyjum á meðan á landsleiknum stóð

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Eyjamenn voru ekki ánægðir þegar rafmagnið fór í dag.
Eyjamenn voru ekki ánægðir þegar rafmagnið fór í dag. Vísir/Óskar Friðriksson
Rafmagnið fór af stórum hluta Vestmannaeyja klukkan fjögur í dag og kom það ekki á fyrr en rétt fyrir tíu í kvöld. Það var því rafmagnslaust í eyjunni á meðan á landsleiknum stóð. Leikurinn var sögulegur enda hefur Ísland aldrei sigrað Hollendinga á þeirra heimavelli áður.

„Þetta var ansi súrt,“ segir eyjamaðurinn Hilmar Ágúst Björnsson. „Það var öll fjölskyldan mætt til að horfa á leikinn. Við gátum horft á 41 mínútu og svo datt þetta út.“ Hópurinn bjargaði sér með því að horfa á viðburðinn í símunum sínum en 3G samband var með besta móti.

Hilmar ásamt kærustunni sinni Guðrúnu Benónýsdóttur.Vísir/Aðsend
„Það var ansi þreytt þó,“ segir Hilmar enda talsvert minni skjár eins og gefur að skilja. „Svo vorum við með batteríslausa tölvu þannig að það var ekki hægt að redda sér þannig.“

Samkvæmt tilkynningu frá Landsneti varð bilun í spenni í tengivirkinu Rimakoti og það orsakaði það að ekki var hægt að flytja rafmagn til Vestmannaeyja.

Vandamálin til um það bil níu

„Í kjöfarið óskaði Landsnet eftir keyrslu varaafls á díselvélum HS Veitna í Vestmannaeyjum og hjá RARIK á Suðurlandi. Ásamt Vestmannaeyjum urðu íbúar undir Eyjafjöllum og í Mýrdal fyrir rafmagnsleysi vegna bilunarinnar.

Strax var hafist handa við að greina bilunina til að koma rafmagni aftur á. Prófað var að setja spennu á spenninn um klukkan 19:30 eftir skoðun og greiningu.  Á svipuðum tíma komu upp erfiðleikar við framleiðslu varafls og varð þá víðtækt rafmagnsleysi í Vestmannaeyjum.  Prófað var að setja spennu á spenninn um klukkan hálf átta og leysti hann aftur út korter í átta. Vandamál voru með afhendingu rafmagns frá varaaflstöð til um það bil kl. 21,“ segir í tilkynningu.

Heimir lét rafmagnsleysið þó ekki skemma fyrir sér gleðina yfir sigri Íslendinga og hefur fulla trú á að velgengnin haldi áfram. „Við komumst á EM alveg bókað. Við tökum Kasakana þrjú núll.“ Hann segir ekki ólíklegt að rafmagnið fari af eyjunni á sunnudag enda hafi það farið af af og til í allt sumar.

En mun fjölskyldan gera ráðstafanir?

„Nei ætli við tökum ekki bara sénsinn.“

Þetta er orðið frekar DÝRT djók þetta helvítis rafmagnsfjör hérna... Skemmir tæki og fleira..

Posted by Jóhanna Inga Jónsdóttir on Thursday, September 3, 2015

Getur einhver sagt mer hvort að helv.. Rafmagnið komi bráðlega, gaman að eiga veitingarstað sem selur fullt af pizzum fyrir landsleikinn, og ekkert hægt að gera :(

Posted by Jóhanna Inga Jónsdóttir on Thursday, September 3, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×