Umræðan

Sið­lausar bónusgreiðslur Skattsins

Erlendur Magnússon skrifar

Það er með öllu siðlaust að starfsmenn Skattsins skuli fá greiddan bónus, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, hvað þá að slíkur bónus byggist á markmiðum um endurálagningu á einstaka skattgreiðendur (einstaklinga og lögaðila) og þá líklega álagi sem lagt er ofan á slíkar greiðslur.

Bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum er stranglega bannað að umbuna starfsmönnum sem annast regluvörslu með bónusgreiðslum. Fjármálaeftirlitið hefur meira að segja sett út á eingreiðslur fjármálafyrirtækja til allra starfsmanna hafi þeir sem annast regluvörslu verið meðal þeirra sem fengu slíkar greiðslur. Hið sama ætti að eiga við um starfsmenn Skattsins.

Skatturinn á að tryggja að farið sé að lögum um álagningu skatta, ekki að reyna að toga og teygja skilgreiningar á lögum til þess að leggja auka álögur ofan á skattgreiðendur – og jafnvel refsa þeim fyrir að hafa ekki gert ráð fyrir lagalegum útúrsnúningi. Skatturinn á að gæta meðalhófs og leiðbeina þeim sem óska eftir skýringum á atriðum sem ekki eru skýr.

Bónusgreiðslur til starfsmanna Skattsins brjóta gegn öllu ofangreindu. Það er vonandi að Umboðsmaður Alþingis taki þessa siðlausu stefnu Skattsins til athugunar hið fyrsta, því þetta getur vart talist góð stjórnsýsla.

Höfundur er fjárfestir.




Umræðan

Sjá meira


×