Enski boltinn

Ör­lög Luton ráðin og allir ný­liðarnir falla

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Luton hafa spjarað sig mun betur en margir héldu, sem nýliði í ensku úrvalsdeildinni, en vonbrigðin voru mikil eftir tapið í dag.
Leikmenn Luton hafa spjarað sig mun betur en margir héldu, sem nýliði í ensku úrvalsdeildinni, en vonbrigðin voru mikil eftir tapið í dag. Getty/Richard Pelham

Luton er svo gott sem fallið og fallbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta þar með lokið, eftir að liðið tapaði 3-1 fyrir West Ham í dag. Sex leikjum var að ljúka og ljóst að allir þrír nýliðarnir í deildinni kveðja hana um næstu helgi.

Luton er ekki formlega fallið en þarf að vinna Fulham í lokaumferðinni, treysta á að Nottingham Forest tapi síðustu tveimur leikjum sínum, og síðast en ekki síst vinna upp 13 marka forskot Forest í markatölu.

Luton komst reyndar yfir á London-leikvanginum í dag, með skallamarki Albert Sambi Lokonga, en í seinni hálfleik skoruðu James Ward-Prowse, Tomas Soucek og George Earthy og tryggðu Hömrunum langþráðan sigur.

Burnley féll eftir 2-1 tap gegn Tottenham, eins og fjallað hefur verið um.

Sheffield United var þegar fallið og tapaði 1-0 fyrir Everton á útivelli, þar sem Abdoulaye Doucoure skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik.

Sheffield sló óvinsælt met en liðið hefur fengið á sig 101 mark í deildinni á þessari leiktíð, fleiri en nokkurt lið hefur gert í sögu úrvalsdeildarinnar.

Newcastle varð að sætta sig við 1-1 jafntefli við Brighton í baráttunni um Evrópusæti, þar sem Sean Longstaff jafnaði metin rétt fyrir hálfleik eftir að Joel Veltman hafði komið Brighton yfir. Newcastle er með 57 stig í 6. sæti, þremur stigum fyrir ofan Chelsea og Manchester United sem nú eiga leik til góða.

Crystal Palace vann 3-1 sigur á Wolves og Brentford hafði betur gegn Bournemouth á útivelli, 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×