Upp­gjörið: Stjarnan - Tinda­­stóll 0-2 | Fyrstu mörkin og fyrsti sigurinn hjá Stólunum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
stjarnan diego
vísir/Diego

Í kvöld lauk 3. umferð Bestu deildar kvenna. Á Samsungvellinum í Garðabæ náði Tindastóll í sín fyrstu stig með sigri á heimakonum í Stjörnunni. Lokatölur 0-2 þar sem Jordyn Rhodes, framherji Tindastóls, skoraði bæði mörkin.

Heimakonur spiluðu með vindi í fyrri hálfleik og voru aðgangsharðari að marki gestanna í upphafi leiks. Tindastóls liðið reyndi þó að halda boltanum á jörðinni í uppspili sínu og komst nokkru sinnum á álitlegar fyrirgjafarstöðu.

Á 21. mínútu leiksins komst Laufey Harpa Halldórsdóttir einmitt í eina slíka fyrirgjafarstöðu og kom með eina frábæra fyrirgjöf inn á teiginn. Jordyn Rhodes, framherji Tindastóls, náði að skalla boltann í átt að marki af stuttu færi. Skalli hennar fór beint á Erin Mcleod, markvörð Stjörnunnar, sem náði ekki að bregðast við og fór boltinn því í gegnum klof hennar og í markið.

Róaðist leikurinn eftir markið og ekki um mörg markverð marktækifæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiksins. Tindastóll leiddi því með einu marki í hálfleik.

Stjarnan hóf síðari hálfleikinn af krafti og skapaði sér nokkur færi ásamt því að fá urmul hornspyrna. Ekki tókst liðinu þó að gera sér kápu úr þeim klæðunum.

Eftir því sem leið á leikinn jókst sóknarþungi Stjörnunnar og á meðan reyndi Tindastóll að beita skyndisóknum eða að halda í boltann og róa leikinn niður.

Á 84. mínútu leiksins átti sér stað ljótt atvik. Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, fékk þá höfuðhögg eftir skallabaráttu við Jordyn Rhodes. Anna María fór af velli á börum og þaðan í sjúkrabíl.

Stjarnan reyndi að blása til sóknar eftir það, en voru gripnar í bólinu. Eftir misheppnað uppspil upp vinstri kantinn á sínum eigin vallarhelmingi tapaði Stjarnan boltanum og lið Tindastóls keyrði í átt að teig heimakvenna. Endaði það með því að Hugrún Pálsdóttir renndi boltanum fyrir þar sem Jordyn Rhodes kom og renndi sér á boltann og skoraði og gulltryggði þar með fyrsta sigur Tindastóls á tímabilinu.

Atvik leiksins

Fyrsta mark leiksins breytti leiknum. Virtist það slá Stjörnu liðið út af laginu á meðan lið Tindastóls valdelfdist við fyrsta mark tímabilsins hjá liðinu.

Stjörnur og skúrkar

Jordyn Rhodes var stjarna leiksins. Skoraði tvö mörk og var erfið við að ráða fyrir varnarmenn Stjörnunnar. Hin 16 ára Elísa Bríet Björnsdóttir var einnig harðdugleg í liði Tindastóls og átti flottan leik fyrir sitt lið sóknarlega sem og varnarlega.

Verð að klína skúrka stimplinum á slaka nýtingu Stjörnunnar á föstum leikatriðum. Liðið gjörsamlega óð í hornspyrnum í leiknum og beittu auk þess löngum innköstum allt frá fyrstu mínútu. Heimakonur náðu þó sjaldnast fyrstu snertingu á boltann og er það merki um að alla grimmd vantaði í liði til þess að komast í boltann.

Dómarar

Þrátt fyrir að mörgu leyti rólegan leik þá átti Guðni Páll Kristjánsson ekki góðan dag á flautunni. Augljós brot hér og þar um völlinn þar sem leikmenn komust upp með að keyra seint inn í andstæðinga sína. Kristallaðist það einnar helst í atviki þar sem markvörður Stjörnunnar, Erin Katrina Mcleod, var keyrð niður eftir að hafa gripið fyrirgjöf en ekkert dæmt. Erin Katrina Mcleod þurfti þó í kjölfarið aðhlynningu og var leikurinn stopp í nokkrar mínútur.

Stemning og umgjörð

Það var fámennt en góðmennt á Samsungvellinum í kvöld. 107 manns mættu á völlinn og var unglingastarfið hjá Silfurskeiðinni sem stýrði stemmningunni í kvöld.

Viðtöl

„Andstæðingurinn var betri inn í teignum, bæði að verjast og sækja“

„Það var stutt á milli. Við eigum fyrsta opna færið í leiknum, skalli í stöng og síðan fær andstæðingurinn opið færi og þar fer boltinn inn í markið. Munurinn liggur í því að andstæðingurinn var betri inn í vítateignum, bæði varnarlega og sóknarlega. Við fáum hálffæri en náum ekki að klára það,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik.

„Andstæðingurinn var betri inn í teignum, bæði að verjast og sækja. Það var eiginlega aðallega það að mér fannst við vera hikandi um leið og leikurinn byrjaði. Mér finnst fyrstu fimm mínúturnar vondar, en síðan komum við inn í leikinn og fáum þetta dauðafæri og mér fannst líka fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik fínar. En svo ferðu að leita að markinu of mikið, þá gerast svona hlutir, þú nærð því ekki og færð eitt í andlitið í lokinn.“

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, á hliðarlínunni í leik kvöldsinsVísir/Pawel Cieslikiewicz

Leikur Stjörnunnar riðlaðist aðeins á lokamínútunum þegar liðið reyndi að jafna leikinn. Liðið missti einnig fyrirliða sinn og einn sinn sterkasta varnarmann, Önnu Maríu Baldursdóttur, út af meidda á lokamínútunum. Endaði það með því að Tindastóll náði að skora sitt annað mark í leiknum.

„Þegar þú ert að sækja svona mikið markið sem þér finnst þú eiga inni þá náttúrulega riðlast aðeins leikurinn. Anna María náttúrulega fer út af mjög seint í leiknum, það riðlaði leiknum ekki beint. Það var bara þetta að þrýsta og ná í markið sem að við áttum skilið, því ég er alveg viss um það. Eins og um síðustu helgi, þá skorum við og unnum leikinn en núna töpuðum við honum. Það er stutt á milli,“ sagði Kristján að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira