Viðskipti erlent

Tupperware á blússandi siglingu á ný

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Fyrirtækið var á barmi þrots í apríl.
Fyrirtækið var á barmi þrots í apríl. Getty

Gengi hlutabréfa í bandaríska fyrirtækinu Tupperware, sem þekktast er fyrir framleiðslu á samnefndum ílátum, jókst um 56 prósent í núliðinni viku. 

Í apríl á þessu ári var greint frá því að hlutabréf í fyrirtækinu, sem starfrækt hefur verið í 77 ár, höfðu hríðfallið, og það væri á barmi gjaldþrots. Fallið hafi orðið í kjölfar herferðar fyrirtækisins þar sem reynt var að ná til yngri notendahóps, auk þess sem fyrirtækið hafði stækkað vöruframboðið sitt og hóf að selja vörur sem ætlaðar eru til eldamennsku. 

Í nýlegri frétt BBC um málið kemur fram að fyrirtækið standi sannarlega ekki frammi fyrir gjaldþroti en hlutabréfaverð hefur nú aukist meira en þrefalt á einni viku. En þrátt fyrir talsverða hækkun síðustu daga er hlutabréfaverð í fyrirtækinu enn þá nær þrjátíu prósent lægra en það var í upphafi árs. 

„Það er einhver bjartsýni í gangi að fyrirtækið gæti verið að komast á réttan kjöl,“ sagði Neil Saunders, framkvæmdastjóri smásölu hjá ráðgjafarfyrirtækinu GlobalData, í samtali við BBC vegna málsins. „Hins vegar eru engar vísbendingar um að svo sé, þannig að bjartsýnin byggist frekar á von en vissu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×